Tafarlausar breytingar á skólaakstri í Ölfusi

Upptök skjálftans voru í Ölfusinu, 4 km frá Hveragerði. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Bæjarráð Ölfuss samþykkti samhljóða á síðasta fundi sínum að gera tafarlausar breytingar á skólaakstri í sveitarfélaginu, þannig að grunnskólabörn þurfi að verja sem minnstum tíma í bílnum.

Fyrir fundinum lágu gögn sem tengjast skólaakstri í dreifbýli og mætti Katrín Sigurgeirsdóttir, markaðs- og menningarfulltrúi, á fundinn til þess að gera grein fyrir stöðu mála vegna barna sem sækja skóla í Grunnskólann í Hveragerði.

Fram kom að 32 börn væru nú í þjónustu vegna skólaaksturs og hefur þeim fjölgað nokkuð. Akstur fer fram á tveimur bílum og nokkur brögð að því að sá tími sem ætlaður er í akstur sé ekki nægilega rúmur til að tryggja að börnin séu mætt á réttum tíma í skólann. Þá er sá tími sem hvert barn ver í bílnum umfram það sem æskilegt er. Þá eru tímasetningar heimaksturs ekki nægilega heppilegar þar sem fyrri bílinn er farinn rétt áður en hluti barna lýkur skólatíma. Tveir bílar annast akstur á morgnanna og tveir eftir hádegi.

Bæjarráð samþykkti að bæta strax við þriðja bílnum á morgnana og að akstri verði þannig háttað að börn þurfi að verja sem minnstum tíma í bílnum. Sérstaklega skal horft til þess að einn bíll aki um suðursvæðið, frá Hrauni að Hveragerði, annar bíll um svæðið norðan Ölfusár og að þjóðvegi og þriðji bílinn um Hvammsveg og svæðið þar norðan þjóðvegs.

Þá fól bæjarráð starfsmönnum einnig að óska eftir hugmyndum frá foreldrum um heppilegar tímasetningar fyrir þær tvær ferðir sem eru fyrir börn heim að afloknum skóla.

Fyrri greinÆgir lokaði sumrinu með tapleik
Næsta greinRáfandi á sokkaleistunum í alvarlegu geðrofi