Tæpum 36 milljónum úthlutað úr uppbyggingarsjóði

Hæfileikakeppnin Skjálftinn fékk einnar milljón króna styrk. Ljósmynd/Ingibjörg Torfadóttir

Uppbyggingarsjóður Suðurlands úthlutaði á dögunum tæplega 36 milljónum króna til menningar-, atvinnu- og nýsköpunarverkefna á Suðurlandi.

Um er að ræða fyrri úthlutun ársins en alls bárust 90 umsóknir; 59 í flokk menningarverkefna og 31 í flokk atvinnu- og nýsköpunarverkefna. Sextíu verkefni hlutu styrk en í umsögn fagráðs, sem fer yfir umsóknirnar, segir að úthlutunin hafi reynst vandasöm þar sem gæði umsókna voru mikil og mörg verkefni verðug styrks.

Hæstu styrkirnir til menningarverkefna voru ein milljón króna og hlutu fimm verkefni styrk að þeirri upphæð. Það voru Biðukolla ehf sem framkvæmir hæfileikasamkeppnina Skjálftann, Byggðasafn Árnesinga fyrir Hafsjó/Oceanus – alþjóðlega listahátíð á Eyrarbakka, Góli ehf fyrir skólatónleikana Stúlkan í turninum, Sumartónleikar í Skálholti 2022 og félagasamtökin Múrar brotnir, fyrir listsýninguna Inside Out, sem er samsýning alþjóðlegra listamanna og fanga.

Smjer ehf fékk hæsta staka styrkinn vegna atvinnuþróunar og nýsköpunar, tvær milljónir króna til þess að þróa og framleiða nýjar vörur úr íslensku smjöri. Fersk þurrkun ehf í Þorlákshöfn fékk tvo styrki, samtals 2,5 milljónir króna til þess að þróa íslenskt hágæða hvítlaukssalt annars vegar og hins vegar til þess að gera tilraunir og vöruþróun með íslenskt wasabi.

Lista yfir öll verkefni sem hlutu styrk má sjá hér.

Fyrri greinFramtíðin er í Flóahreppi
Næsta greinSelfoss slátraði Ísbirninum