
Á dögunum var úthlutað úr Sprotasjóði og komu þrjár úthlutanir til verkefna í Árborg. Sprotasjóður styður við þróun og nýjungar í skólastarfi í leik- grunn- og framhaldsskólum.
Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri hlaut tvo styrki, samtals að upphæð rúmlega 1,7 milljón króna. Eina milljón króna fyrir verkefnið Í leiknum búa töfrarnir og 710 þúsund krónur fyrir verkefnið Ljóðlína til lífs.
Verkefnið Í leiknum búa töfrarnir felst í því að læra í gegnum leik aðferð sem hefur reynst vel í gegnum tíðina. Reynslan hefur sýnt að margir eiga erfitt með að læra það sem fyrir þá er lagt í bókum eða á blaði, og eiga auðveldara með að tileinka sér þekkinguna í gegnum leik. Hægt er að kenna næstum allt í gegnum leik ef hann er rétt útfærður. Þekktar aðferðir eru t.d. að kenna stærðfræði og fjármálalæsi með því að setja upp hlutverkaleik sem er búðaleikur.
Verkefnið Ljóðlína til lífs er skapandi verkefni sem eflir læsi nemenda með ljóðasmíð, rím, hrynjanda og myndmál. Nemendur nota stafrænar aðferðir til myndskreytinga og styrkja færni í lesskilningi, ritun og tjáningu. Lokaverkefnið er ljóðabók sem þeir hanna með myndlistarkennara og prentsmiðju. Að lokum kynna nemendur ljóð sín á menningarviðburði fyrir fjölskyldum og samfélagi.
Þá fékk Sveitarfélagið Árborg tveggja milljón króna styrk fyrir þróunarverkefnið Læsi fyrir lífið. Verkefnið miðar að því að efla læsiskennslu á mið- og unglingastigi með fjölbreyttum aðferðum. Aðferðin byggir á að nýta samvirkar læsiskennsluaðferðir og samþætta vinnu með orðaforða, lesskilning, lesfimi, ritun, samræðu, tjáningu og hlustun í skólastarfi. Unnið með læsi þvert á námsgreinar og fá kennarar leiðsögn og þjálfun í að kafa dýpra í viðfangsefni með nemendum og nota verkfæri á borð við gagnvirkan lestur, hugtakagreiningu, ritunarramma og samræður.
Í þetta skiptið úthlutaði Sprotasjóður 80,8 milljónum króna til þrjátíu skólaþróunarverkefna um allt land.
BES hlaut styrk úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla
Þess má geta að lokum að Barnaskólinn á Eyrarbakka og Stokkseyri hlaut einnig á dögunum 336 þúsund króna styrk úr Endurmenntunarsjóði grunnskóla til að styðja við innleiðingu nýrrar uppeldisstefnu í skólastarfinu. Styrkurinn verður nýttur í fræðslu og stuðning fyrir starfsfólkið í innleiðingarferlinu. Verkefnið hefur verið kynnt í skólaráði og verður kynnt foreldrum í upphafi næsta skólaárs.
