Tæpar 110 milljónir króna í verkefni á Suðurlandi

Fjallahjólafyrirtækið Icebike adventures ehf. hlýtur tæpar sjö milljónir til umbóta í Ölfusdölum. Ljósmynd/Icebike Adventures

Menningar- og ferðamálaráðherra, úthlutaði nýverið tæpum 540 milljónum króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til verkefna um land allt, þar af tæpum 110 milljónum til verkefna á Suðurlandi.

Styrkjum úr sjóðnum er úthlutað einu sinni á ári en 125 umsóknir bárust í sjóðinn að þessu sinni. Fjögur verkefni á Suðurlandi hlutu styrk en Sveitarfélagið Hornafjörður hlaut einn hæsta styrkinn, 90 milljónir króna til uppbyggingar gönguleiðar og áningarstaða við Múlagljúfur. Umferð ferðamanna við Múlagljúfur hefur vaxið gífurlega hratt á undanförnum árum og er mikilvægt að bregðast fljótt og vel við aukinni aðsókn. Staðurinn er á áfangastaðaáætlun Suðurlands og snýr verkefnið að því að tryggja öryggi ferðamanna og vernda náttúru á stílhreinan hátt í takt við umhverfið.

Skógræktarfélag Austur Skaftafellssýslu hlýtur rúmar tíu milljónir króna til að tryggja grunnþjónustu, salernisaðstöðu og öruggt neysluvatn í Haukafelli í Hornafirði. Haukafell, sem er á áfangastaðaáætlun Suðurlands, er vinsælt útivistar- og göngusvæði með tjaldsvæði.

Fjallahjólafyrirtækið Icebike Adventures ehf. hlýtur tæpar sjö milljónir til umbóta í Ölfusdölum. Þetta er annar áfangi framkvæmda en fyrirtækið hefur tekið að sér gerð- og breikkun stíga, kortlagningu, merkingar og upplýsingagjöf á svæðinu. Með framtakinu aukast útivistarmöguleikar í Ölfusdölum fyrir fólk á öllum aldri, í öruggu umhverfi og í sátt við náttúru.

Þá hlýtur Hestamannafélagið Geysir 660 þúsund krónur í merkingu reiðleiðar frá Dalakofa að Landmannahelli. Þessi fallega reiðleið fer um viðkvæmt land og er framkvæmdinni ætlað að sporna við skemmdum á náttúrunni.

Fyrri greinSkemmtileg fimleikahelgi hjá Selfyssingum
Næsta greinUTU flutt í nýtt húsnæði við Hverabraut