Tæp 151 milljón króna til verkefna á Suðurlandi

Dvalarheimilið Ás. Ljósmynd/Dvalarheimilið Ás

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur úthlutað tæpum 1,1 milljarði króna úr Framkvæmdasjóði aldraðra. Alls fara 150,8 milljónir króna til verkefna á Suðurlandi.

Hæsta framlagið á Suðurlandi fer til Áss í Hveragerði, 123,2 milljónir, þar sem stærstu verkefnin eru endurbætur á innri rýmum og stækkun matsalar við Frumskóga 6, viðgerðir á gluggum og útveggjum vegna leka og raka og að byggja yfir svalir á Ási. Einnig stendur til að bæta aðbúnað í sjúkraþjálfun, setja upp stigalyftu, bæta brunakerfi á Ási og bæta eldhúsaðstöðu og sjúkrakallkerfi í Bröttuhlíð og Frumskógum.

Klausturhólar á Kirkjubæjarklaustri fá 20,3 milljónir króna vegna viðhalds á þakglugga á Lómagnúpi og endurbótum á gólfefnum þar vegna vatnsleka. Einnig á að skipta um gólfefni á sameiginlegum rýmum og bæta eldhúsaðstöðu.

Lundur á Hellu fær 3,5 milljónir króna til að endurnýja hurðir í eldri byggingu og laga glugga vegna leka, Kirkjuhvoll á Hvolsvelli fær 2,9 milljónir króna til að bæta hreinlætisaðstöðu og setja upp loftlyftu og Hjallatún í Vík í Mýrdal fær 920 þúsund krónur til endurbóta á þaki vegna leka.

Hlutverk Framkvæmdasjóðs aldraðra er að stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um allt land. Alls voru veittir styrkir til 57 verkefna til margvíslegra framkvæmda og endurbóta á hjúkrunarheimilum um allt land. Hæsta framlagið að þessu sinni, tæpar 112 milljónir króna, fer til Grindavíkurbæjar til byggingar þjónustumiðstöðvar með félagsaðstöðu fyrir aldraða.

Fyrri greinÁrborg mætir ÍH í 16-liða úrslitum
Næsta greinSara íþróttamaður Rangárþings ytra 2022