Tæmdi sparibaukinn til að styrkja Kraft

Anna Kristín heimsótti Kraft og hafði sparibaukinn meðferðis. Ljósmynd/Aðsend

Anna Kristín Kjartansdóttir, 11 ára stelpa á Selfossi, kom nýverið í Kraft með sparibaukinn sinn og tæmdi hann til styrktar félaginu.

Kraftur er stuðningsfélag fyrir ungt fólk sem hefur greinst með krabbamein og fjölskyldur þeirra. Ein af fjáröflunum félagsins hefur verið selja „Lífið er núna“ perluarmbönd.

Anna Kristín var búin að safna í nokkra mánuði fyrir armböndum sem hún ætlar að gefa vinum og fjölskyldu í jólagjöf. Spariféð hefur hún unnið sér inn með því að mála og selja málverk til vina og vandamanna og halda tombólur svo eitthvað sé nefnt.

Anna safnaði hátt í 14.000 krónum og náði hún að kaupa sjö armbönd. Þegar Anna var spurð af hverju hún vildi styrkja félagið sagði hún: „stjúppabbi minn er að berjast við krabbamein og langaði mig að hjálpa fólki í svipuðum sporum og við erum í. Mér finnst armböndin ótrúlega falleg gjöf og langaði að gefa þau í jólagjöf.“

Hulda Hjálmarsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, segir að þau hjá félaginu hafi verið snortin af þessu einstaka framtaki hjá Önnu sem sýnir svo sannarlega að sælla er að gefa en að þyggja.

Fyrri greinRíkisstjórnin samþykkir tilraunaverkefni um sjúkraþyrlu
Næsta greinLeitað að konu við Dyrhólaey