Tæpar 190 milljónir í uppbyggingu á Suðurlandi

Tæpum 190 milljónum króna verður varið í uppbyggingu og verndaraðgerðir á ferðamannastöðum á Suðurlandi í sumar samkvæmt úthlutun ráðuneytis úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Alls var úthlutað styrkjum til 88 verkefna um land allt sem talin eru brýn vegna verndunar eða öryggissjónarmiða og þola ekki bið. Rúmlega 380 milljónum er úthlutað og fer um helmingur úthlutunarfésins til verkefna á Suðurlandi.

Umhverfisstofnun fær 28,7 milljónir króna til ýmissa verkefna, stærstur hlutinn 23 milljónir króna fara til framkvæmda við göngustíga og öryggismál við Gullfoss. Þá fara 3,7 milljónir í úrbætur gönguleiða að Fjallabaki og 1,5 milljónir króna í styrkingu göngustíga við Dyrhólaey.

Vatnajökulsþjóðgarður fær rúmlega 14,2 milljónir króna til þess að bæta aðgengi og öryggi ferðamanna í Eldgjá. Einnig fær þjóðgarðurinn 25 milljónir til ýmissa lagfæringa og smíði útsýnispalls við Svartafoss í Skaftafelli.

Skógrækt ríkisins fær níu milljónir króna til að laga göngustíga í Þórsmörk, við Hjálparfoss í Þjórsárdal og við Systrafoss í Skaftárhreppi þar sem meðal ananars verður lagður stigi upp að fossinum.

Landgræðsla ríkisins fær 1,2 milljónir króna til þess að bæta öryggi í Víkurfjöru með gerð handriða, umferðarhindrana og göngustíga og Minjastofnun Íslands fær fimm milljónir króna til verndunar og uppbyggingar á stígum við Stöng í Þjórsárdal.

Þjóðgarðurinn á Þingvöllum fær 13 milljónir króna til stígagerðar en stærstur hluti úthlutunarinnar, 11 milljónir króna, er eyrnamerktur Flosagjá þar sem mosabreiður og lyng á gjábörmum er flakandi sár og víðtækir og skipulagslausir troðningar liggja frá gjánni niður að vatni.

Sveitarfélagið Bláskógabyggð fær úthlutað 15 milljónum króna til hönnunar stígagerðar og öryggisgrindverks við Geysi og Flóahreppur fær rúmar 5,6 milljónir króna til viðgerðar á gróðri, stígagerðar og öryggismála við Urriðafoss.

Hveragerðisbær og Sveitarfélagið Ölfus fá samtals níu milljónir króna til uppgræðslu og stígagerðar í Reykjadal og Mýrdalshreppur fær 1,4 milljón króna til stígagerðar og stækkunar rútustæðis í Víkurfjöru og gerð gönguleiða í Mýrdalssveit.

Rangárþing eystra fær rúmar 30,3 milljónir króna til ýmissa verkefna. Stærstur hlutinn er vegna viðhalds gönguleiða í Þórsmörk, rúmar 15,3 milljónir króna. Einnig er gert ráð fyrir rúmum 8,6 milljónum króna til hönnunar og framkvæmda við tröppur og stíg norðanmegin við Seljalandsfoss. Rangárþing eystra fær einnig styrki vegna öryggispalls við Skógafoss, stígagerð og varnir við utanvegaakstri við Gígjökul, stikun göngu leiða á Fimmvörðuhálsi og viðhalds göngustíga í Völvuskógi.

Rangárþing ytra fær 13,2 milljónir króna vegna ýmissa göngustíga og öryggismála. Fimm milljónum verður varið í göngustíg milli Ægissíðufoss og Árbæjarfoss en einnig á að græða upp og lagfæra við Þjófafoss og Fossbrekkur, endurgera öryggispall við Ægissíðufoss og stika leiðir í Friðlandinu að fjallabaki.

Skaftárhreppur fær tvær milljónir vegna öryggismála við Fjarðarárgljúfur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur fær samtals rúmar 6,2 milljónir króna vegna uppgræðslu og stígagerðar við Gjána og öryggismál við Hjálparfoss. Þá fær Hrunamannahreppur níu milljónir króna til stíga-, brúar- og tröppugerðar í Kerlingarfjöllum.

Fyrri greinKleinusala á kjördag
Næsta greinTryggja áframhaldandi ræktun