„Tær skemmtun“

„Við erum svo lánsamar að vera í góðu samstarfi við Hveragerðisbæ og höldum því tvö næstu Sveita-Samflot í hinni dásamlegu laug í Laugaskarði,“ segir Guðrún Kristjánsdóttir hjá heilsuhofinu Systrasamlaginu.

„Við héldum prufuflotið okkar í Laugaskarði í nóvember á síðasta ári og það var að allra mati stórkostleg upplifun,“ segir Guðrún sem stendur fyrir Sveita-samflotinu ásamt systur sinni Jóhönnu. Þær systur hafa staðið fyrir fjöldamörgum samflotum, meðal annars í Gömlu lauginni á Flúðum.

Seldist strax upp á fyrra samflotið
Sem fyrr segir verða haldin tvö Sveita-samflot í Laugaskarði í maí. Hið fyrra verður haldið þann 6. maí næstkomandi og hið síðara 20. maí. „Við ákváðum að halda tvö Sveita-Samflot í Laugaskarði í maí því að það seldist strax upp á samflotið sem er núna á laugardaginn,“ segir Guðrún og bætir því við að það séu aðeins örfá laus sæti á seinna samflotið.

„Fyrri Sveita-Samflotin hafa í einu orði sagt gengið frábærlega og alltaf færri komist að en vilja. Það er eins og þörfin fyrir rólegt heilsudjamm fari vaxandi. Þetta er nefnilega tær skemmtun og upplifun,“ segir Guðrún.

Guðrún segir að hinn innri heimur okkar sé ansi heillandi og að miklu leyti ókannaður. „Við þurfum bara að fá tækifæri, rými og ró til að komast þangað. Það að fljóta er ein besta leiðin til þess. Svo líður fólki svo vel eftir Sveita-Samflotið, sérstaklega ef umgjörðin er góð og vatnið er notalegt.“

Hveragerði allt mun njóta góðs af
„Hópurinn breikkar frá floti til flots sem sækir Sveita-samflotið. Fyrst voru það bara hörðustu jógarnir sem mættu en nú er allskonar fólk til í að slaka á og skemmta sér. Jafnvel þótt það hafi engan áhuga á jóga eða hugleiðslu,“ segir Guðrún.

Að sögn Guðrúnar fer karlmönnum ört fjölgandi sem sækja Sveita-samflot. „Nú er svo komið að bæði karlmaður og kona ætla að hita upp jógað fyrir okkur þann 20. maí. Þórey Viðar sem er bæði jógakennari og tónheilari verður með okkur á laugardag. Hún er ansi mögnuð. Hveragerði allt mun sjálfsagt njóta góðs af hæfileikum hennar á laugardag.“

Guðrún segir umfram allt að fólk eigi von á góðu heilsudjammi á Sveita-samflotinu. „Það er gaman að brjóta upp laugardagskvöldin og gera eitthvað allt annað, sem máski er bara skemmtilegra en flest annað djamm. Það skilur mikið eftir sig. Og þó að fólk kunni að fara aðeins á flug þá er það vegna þess að þegar við fljótum virkjum við gjarnan okkar innri boðefni. Við förum á hinn náttúrulega boðefnabar og eftirköstin eru engin.“


Frá samflotinu í Laugaskarði í nóvember síðastliðnum.

Sveita-Samflot á Facebook