Tæpum 60 milljónum króna varið í átta verkefni

Sl. föstudag var undirritaður samningur milli Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) og ríkisins um 59,2 milljóna króna fjárframlag til landshlutans á grundvelli Sóknaráætlunar Suðurlands.

Undirritun samningsins fór fram í Þjóðmenningarhúsinu í Reykjavík að viðstöddum forsætisráðherra Íslands, innanríkisráðherra og fjármálaráðherra sem jafnframt skrifaði undir samninginn fyrir hönd ríkisins. Gunnar Þorgeirsson, formaður SASS, ritaði undir samninginn fyrir hönd SASS.

Sóknaráætlun Suðurlands er stefnumarkandi skjal á sviði atvinnu-, menningar- og menntamála fyrir landshlutann Suðurland. Um er að ræða samantekt á ýmsum greiningum á þeim sviðum fyrir landshlutann, stefnumarkandi aðgerðaráætlun og niðurstöður um ráðstöfun tiltekinna fjármuna.

Í einföldu máli er um að ræða útdeilingu á fjármagni til ýmissa verkefna en það skref sem stigið hefur verið með Sóknaráætlun Suðurlands snýr ekki síst að fyrirkomulaginu.

Verkefnið Sóknaráætlun Suðurlands er afrakstur samvinnu um 200 þátttakenda sem komu að verkefninu með einum eða öðrum hætti, unnu merkilegt og óeigingjarnt starf í þágu Suðurlands. Vinna við fyrstu Sóknaráætlun Suðurlands hefur að miklu leyti miðast við þá uppbyggingu þekkingar, vinnulags og verkferla við að takast á við árlega vinnu sóknaráætlana fyrir landshlutann hér eftir. Á þeim grunni sem nú hefur verið reistur er unnt að byggja á og takast á við aukin verkefni og viðameiri, í gegnum sama farveg og með sama vinnulagi.

Fénu ráðstafað í átta verkefni
Þau verkefni sem áætlað er að framkvæma, fyrir þá upphæð sem til ráðstöfunar er á árinu 2013, eru átta talsins. Verkefnin eru fæst á einu afmörkuðu málefnasviði, heldur skarast flest á einn eða annan hátt á milli málefnasviða.

Verkefnin eru að litlu leyti bundin ákveðnum sveitarfélögum en tvö verkefni miðast við ákveðið svæði innan landshlutans, miðsvæðið, svæðið sem nær frá Markarfljóti til Öræfa. Miðsvæðið hefur búið við lakari tækifæri en önnur til sí- og endurmenntunar og snýr verkefnið að uppbyggingu á því sviði. Önnur verkefni taka meira mið af styrkleikum landshlutans í heild og að nýta þá til hagsbóta fyrir heildina, enn önnur byggja á tækifærum sem landshlutinn hefur til sóknar á ýmsum sviðum.

1. Efling samstarfs um mennta- og fræðastarf á Suðurlandi – 4 milljónir kr.

2. Uppbygging símenntunar á miðsvæðinu – 8 m.kr.

3. Menntalestin á Suðurlandi – 2 m.kr.

4. Upplýsingagátt Suðurlands – sudurland.is – 7 mkr.

5. Listnám, nýsköpun og skapandi greinar á Suðurlandi – greining og stefnumótun – 4 m.kr.

6. Styrkir og stuðningsaðgerðir til eflingar atvinnulífs og nýsköpunar á Suðurlandi – 15,9 m.kr.

7. Bændamarkaður Suðurlands og stuðningur við vöruþróun og markaðssókn smáframleiðenda – 7 m.kr.

8. Suðurland allt árið – 5 m.kr.

Í fréttatilkynningu frá SASS segir að það sé mat landshlutasamtakanna að Sóknaráætlun Suðurlands sé fyrst og fremst samvinna um uppbyggingu í landshlutanum, í þágu landshlutans og skref í átt að sjálfstæðri byggðastefnu fyrir Suðurland, unnin af Sunnlendingum, fyrir Sunnlendinga, sem byggð er á staðbundinni þekkingu heimamanna og unnin út frá styrkleikum, veikleikum og tækifærum Suðurlands til sóknar.

Fyrri greinFinnbogi leiðir Lýðræðisvaktina
Næsta greinJarðrask vegna framkvæmda við Ljósnetið