Tæplega sextugur skógur brúar gap í Almannagjá

Göngubrú yfir gjána sem myndaðist í Almannagjá í fyrra er komin upp og hefur þegar verið tekin í notkun.

Dekk brúarinnar er gert úr íslensku timbri, nánar til tekið sitkagreni úr Stálpastaðaskógi í Skorradal. Timbrið féll til í grisjun á 56 ára gömlum skógi, þar sem meðalhæð trjánna var 14-15 metrar. Plankarnir eru 7,3 cm þykkir, 15 cm breiðir og þriggja metra langir og því eru alls rúmlega 14 m3 af timbri í dekkinu.

Slíkt væri ekki í frásögur færandi nema fyrir það að þetta er í fyrsta sinn sem svo mikið magn af þetta stórum plönkum er framleitt úr íslenskum skógi. Það hefði ekki verið hægt fyrir tíu árum síðan og er brúin því til marks um vaxandi möguleika til sjálfbærra skógarnytja á Íslandi.

Heimasíða Skógræktar ríkisins