Tæplega sextíu fangar í Fsu

Á nýliðinni haustönn voru 58 nemendur í fangelsum innritaðir í Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi. Þar af voru 45 á Litla-Hrauni og 13 á Sogni.

Í annarannál Þórarins Ingólfssonar, aðstoðarskólameistara, við brautskráningu stúdenta í gær kom fram að átján fangar hurfu frá námi á ýmsan hátt á önninni án þess að þreyta nokkur próf. Þá varð nokkur tilfærsla á nemendum milli vistunarstaða, en reynt var að gefa þeim kost á að ljúka þeim áföngum, sem þeir höfðu innritast í – ýmist með með því að flýta prófum eða með fjarkennslu.

Þessir 58 nemendur lögðu undir 144 námseiningar og skiluðu sér í hús 124 einingar, eða rúmlega 86% eininganna.

Sex kennarar frá FSu fóru reglulega á Litla-Hraun til að sinna kennslu þar og þrír fóru á Sogn í hverri viku. Kennslustjóri á Litla Hrauni er Ingi S. Ingason.

Fyrri greinFleiri einingar töpuðust en á síðustu haustönnum
Næsta greinFimmtán taka þátt í prófkjöri