Syntu 81,5 kílómetra í Guðlaugssundi

Í dag var þess minnst á Hvolsvelli að 30 ár eru liðin frá frækilegu afreki Guðlaugs Friðþjófssonar sem synti tæpa 6 km að landi þegar vélbáturinn Hellisey sökk við Vestmannaeyjar.

Ungmennafélagið Eyfellingur og Íþróttafélagið Dímon efndu til áheitasunds til styrktar viðhaldi og hreinsunar Seljavallalaugar þar sem hægt var að velja fjórar vegalendir til að synda þ.e. 6 km, 3 km 1,5 km og 500 m.

Þátttakan var góð en um hundrað manns á öllum aldri tóku þátt í sundinu. Þegar laugin lokaði kl. 21 í kvöld höfðu sundkapparnir lagt að baki um það bil 81.500 metra. Þess má til gaman geta að sveitarstjórinn Ísólfur Gylfi Pálmason synti 6,1 kílómeter og var nokkuð montinn af því á Facebooksíðu sinni. „Hins vegar minnkar montið þegar ég hugsa til hetjunnar miklu, Guðlaugs, sem vann sitt ofurmannlega afrek sem flestir muna enn eftir,“ sagði Ísólfur ennfremur.

Sveitarfélagið Rangárþing eystra lagði sín lóð á vogarskálarnar í söfnuninni en það hét 100 krónum á hverja 100 metra sem syntir voru í dag. Áfram verður tekið við frjálsum framlögum í sundlauginni á Hvolsvelli en einnig er hægt að leggja framlög inn á reikning 0182-05-060685 og kennitala 470602-2440.