Sýnir Brota á stórri hönnunarráðstefnu

Hvergerðingurinn Anna Birna Björnsdóttir er ein ellefu nemenda Listaháskólans í Bergen í Noregi sem sýna mun hönnunargrip á Stockholm Furniture & Light Fair í Svíþjóð í næstu viku.

Anna Birna er í innanhússarkítektúra- og húsgagnahönnuðarnámi við Listaháskólann í Bergen. Í bekknum hennar eru ellefu nemendur og hafa þau fengið þann Heiður að sýna frumgerð af húsgagni eftir þau sjálf á sýningunni. Hún verður haldin í Stokkhólmi 7.-11. febrúar og er ein stærsta húsgagna- og hönnunarráðstefna sem haldin er í Evrópu.

“Það er ótrúlegur heiður að fá að sýna þarna með fullt af stórum hönnuðum. Ég er eini útlendingurinn í bekknum mínum og mér finnst frábært að fá að kynna landið mitt og hvað við höfum upp á að bjóða í húsgagnahönnun,” sagði Anna Birna í samtali við sunnlenska.is en húsgagnið hennar heitir Broti.

“Brota er hægt er að nota á marga vegu, sem sæti, borð, blaðastand og fótskemil allt á sama tíma,” segir Anna Birna sem kann vel við sig í Bergen en hún er að ljúka þriðja ári í skólanum og bachelor gráðu í vor.

“Hugmyndin kom þegar ég sat á bekk og fór að velta fyrir mér hvað það gæti verið þægilegt að hafa borð nálægt þar sem ég gæti lagt fartölvuna mína og tebollann frá mér. Ég ímynda mér að hægt sé að nota Brota á almenningsstöðum eins og í móttökum eða á biðstofum, og á heimilum er hægt að nota hann sem skemmtilegan sófa eða jafnvel sem sófaborð.”