Syndir frá Eyjum á Landeyjasand

Sigurgeir Svanbergsson, sjósundskappi. Ljósmynd/Synt frá Vestmannaeyjum

Næstkomandi föstudag mun Sigurgeir Svanbergsson synda frá Vestmannaeyjum yfir á Landeyjasand til styrktar Barnaheillum – Save the Children á Íslandi.

Ef afrekið tekst verður Sigurgeir sjötti einstaklingurinn sem þreytt hefur sundið svo vitað sé til. Sigurgeir safnar áheitum fyrir Barnaheill og mun allt safnað fé renna til stuðnings börnum sem búa á átakasvæðum.

Veður- og hafskilyrði verða að vera góð og hefur Sigurgeir undanfarna daga vaktað veðrið og hafstraumana. Á föstudaginn er góður veðurgluggi til að synda þessa rúmlega 12 kílómetra, sem er sama leið og Herjólfur siglir. Sigurgeir leggur af stað kl. 15:45 frá Eiðinu í Vestmannaeyjum og ef allt gengur upp ætti hann að vera kominn á Landeyjasand fyrir klukkan 22. Sjálfur segist Sigurgeir vera nokkuð afslappaður yfir því að mæta ýmsum sjávardýrum á leiðinni en urmull af háhyrningum er á þessu svæði.

Synti í hringi í Kollafirðinum
Með sundinu vill Sigurgeir vekja athygli á stöðu barna sem búa á átakasvæðum í heiminum. Nú býr eitt af hverjum sex börnum, eða 450 milljónir barna á átakasvæðum og er það 5% aukning á milli ára. Áheitaféinu verður varið beint til barna á átakasvæðum en Barnaheill starfa í 120 löndum og veita meðal annars mannúðaraðstoð á átakasvæðum. Þar leggja samtökin áherslu á öryggi og vernd barna.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Sigurgeir syndir til styrktar börnum. Árið 2021 synti hann yfir Kollafjörðinn, frá Kjalarnesi til Reykjavíkur, til styrktar Einstökum börnum. Sundið tók um 9 klukkutíma og var um 12 kílómetrar. Það gekk reyndar ekki áfallalaust fyrir sig því fylgdarbátur Sigurgeirs varð vélarvana og þurfti Sigurgeir að synda í hringi klukkutíma og á meðan beðið var eftir öðrum fylgdarbáti breyttust straumar í firðinum og Sigurgeir lenti í milkum mótstraumi síðustu kílómetrana.

Nánar um verkefnið

Fyrri greinÞakkir frá Okkar Hveragerði
Næsta greinUppsveitamenn stinga af – KFR með stórsigur