Sýndargólf og kvikmyndir í Þjórsárstofu

Í Þjórsárstofu er kynning á Skeiða- og Gnúpverjahreppi og Þjórsárdal. Nú er verið er að gera 10 mínútna langa mynd sem þar verður til sýnis. Einnig verður sérstakt barnahorn með sýndargólfi og verður þannig reynt að höfða til fjölskyldufólks.

Unnið er enn frekar að því að þróa rekstur Þjórsárstofu sem opnaði formlega 27. maí og staðsett er í Félagsheimilinu Árnesi. Þjórsárstofa er rekin sameiginlega af Skeiða- og Gnúpverjahrepp og Landsvirkjun og funduðu sveitarstjórn og Landsvirkjun nýlega um framtíðaruppbyggingu og form reksturs Þjórsárstofu.

Gunnar Örn Marteinsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, segir vinnuna sem sé framundan fyrst og fremst vera tæknilegs eðlis og einungis séu smávægilegar breytingar eftir í salnum í Þjórsárstofu.

Gunnar segir að farið hafi verið yfir það hvernig gera eigi klárt fyrir næsta sumar og hvernig markaðsátak skuli framkvæmt. Upphaflega var talað um að í Þjórsárstofu ætti að kynna virkjunarkosti svæðisins en með nýuppsettri virkjunarsýningu í Búrfelli sé það álitið óþarfi auk þess sem óvissan um virkjunarkosti í neðri hluta Þjórsár setti strik í reikninginn um kynningu á virkjunum í Þjórsá.