Sýnataka í boði í Þorlákshöfn

Mynd úr safni. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Á morgun hefjast sýnatökur vegna COVID-19 í Þorlákshöfn. Þær verða í boði alla virka daga frá klukkan 9-11.

Með þessu svarar Heilbrigðisstofnun Suðurlands ákalli á sjötta hundrað Þorlákshafnarbúa og íbúa í Ölfusi, sem skrifuðu á dögunum á undirskriftalista þar sem skorað var á HSU að bjóða upp á aukna þjónustu varðandi PCR og hraðpróf.

Sýnatökurnar fara fram í Ráðhúsi Ölfuss og er gengið inn að vestanverðu en bílastæði eru að austanverðu. Framkvæmdar verða PCR sýnatökur og hraðpróf en það verður öryggisfyrirtækið Securitas sem mun sjá um framkvæmdina undir handleiðslu heilbrigðisstarfsmanna á HSU.

Ljóst er að þetta mun létta talsvert á bílaröðinni sem myndast á Selfossi alla virka morgna en nú er í boði að fara í sýnatökur á Selfossi og í Þorlákshöfn á morgnana og frá klukkan 15-17 á Hvolsvelli.

Fyrri greinHinseginvika Árborgar haldin í fyrsta sinn
Næsta greinMyndlistarnemar opna sýningu í Listagjánni