Sylvía Karen ráðin sveitarstjóri

Á fundi sveitarstjórnar Skeiða- og Gnúpverjahrepps í gær lagði Haraldur Þór Jónsson, oddviti og sveitarstjóri, fram tillögu að nýju skipuriti fyrir sveitarfélagið og óskaði jafnframt eftir því að fjármálastjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Sylvía Karen Heimisdóttir, tæki við starfi sveitarstjóra frá og með gærdeginum og út kjörtímabilið.

Sveitarstjórn samþykkti samhljóða nýtt skipurit og staðfesti ráðningu Sylvíu Karenar. Haraldur Þór mun starfa áfram sem oddviti í 100% starfi

Sylvía Karen hefur því tekið við ábyrgð á daglegum rekstri sveitarfélagsins. Hún hefur starfað hjá sveitarfélaginu frá sumrinu 2020, fyrst sem aðalbókari en tók svo við starfi sveitarstjóra í apríl 2021 þegar Kristófer Tómasson sagði upp störfum.

Haraldur Þór tók bæði við starfi oddvita og sveitarstjóra að loknum síðustu kosningum, árið 2022.

„Á þessum tveimur árum hefur náðst mikill árangur í rekstri sveitarfélagsins og uppsafnaður rekstrarafgangur síðustu tveggja ára er rúmar 252 milljónir og veltufé frá rekstri rúmar 372 milljónir. Skuldahlutfall sveitarfélagsins hefur lækkað verulega og stendur síðustu áramót í 36,9% og veltufé frá rekstri er komið upp í 17,3%. […] Einnig hefur á sama tíma náðst mikill árangur í þeirri umræðu að tryggja sveitarfélögum með orkuframleiðslu ávinning af þeirri starfsemi, en í Skeiða- og Gnúpverjahreppi hefur mest raforka verið framleidd á Íslandi og núverandi raforkuframleiðsla í sveitarfélaginu dugar öllum heimilum og fyrirtækjum á Íslandi, að undanskilinni stóriðjunni,“ segir í tilkynningu sem Haraldur sendi fjölmiðlum í morgun.

Haraldur Þór Jónsson. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinNýr meirihluti myndaður í Árborg
Næsta greinAuður lagði grunninn að fyrsta sigri Selfoss