Sýknaður af svikum við leigubílstjóra

Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í gær karlmann af tveimur ákærum fyrir fjársvik.

Var honum gefið að sök að hafa í tvígang hlaupist frá leigubílafargjaldi, fyrir akstur frá Selfossi til Þorlákshafnar. Tveir leigubílstjórar kærðu hann fyrir athæfið og sagði annar að hann hefði hlaupist frá greiðslu í mars 2009 og hins vegar í maí sama ár.

Í öðru tilvikinu var honum gefið að sök að hafa sagst ætla inn til sín á áfangastað að ná í peninga, en hann hafi þá farið á bak við húsið og haldið á brott, en hann hafi alls ekki átt heima í viðkomandi húsi. Í því tilviki hafði fargjaldið verið 6.240 krónur. Í skýrslutöku hjá lögreglu kannaðist maðurinn ekki við að hafa verið á staðnum.

Í hinu tilvikinu greindi hann og leigubílstjórann á um það hvort með þeim hefði tekist munnlegur samningur um að hann skyldi greiða 5.000 krónur fyrir farið, sem hann og gerði, eða hvort samningurinn hefði hljóðað upp á 7.000 krónur.

Héraðsdómur taldi framburð leigubílstjóranna beggja í grundvallaratriðum trúverðugan. Niðurstaðan var hins vegar sú að í sakamáli sem þessu yrði maðurinn ekki sakfelldur fyrir brot þar sem stæði orð gegn orði.

Ekki var tekinn til greina framburður vitna þess efnis að maðurinn væri þekktur að því að haga sér með þessum hætti. Hann var því sýknaður af báðum ákæruliðum.

Fyrri greinSíðustu dagar jólagarðsins
Næsta greinDaníel og Ingibjörg taekwondofólk ársins