Sýknaður af ritalínsmygli

Héraðsdómur Suðurlands sýknaði í gær mann af ákæru um smygltilraun á 30 töflum af ritalíni til fanga á Litla-Hrauni.

Maðurinn kom í fangelsið þann 30. desember 2009 með 30 töflur af Ritalin Uno í farteskinu í þeim erindum að heimsækja fanga. Fíkniefnahundur merkti manninn og framvísaði hann þá töflunum til fangavarða.

Maðurinn sagðist ekki vita um hvers konar töflur væri að ræða en hann hafði verið beðinn um að færa fanganum þær og átti að fá greitt fyrir. Töflurnar voru gerðar upptækar, og maðurinn var ákærður enda er athæfi af þessu tagi bannað með lögum.

Í ákæru lögreglustjórans á Selfossi er háttsemi mannsins talin varða við 81. grein laga um fullnustu refsinga þar sem segir að sá sem smyglar efnum í fangelsi skuli sæta sektum eða fangelsi í allt að sex mánuði. Vísað er í aðra lagagrein þar sem fram kemur að átt sé við efni sem fanga sé óheimilt að hafa í vörslum sínum samkvæmt reglum fangelsisins. Samkvæmt þeim mega fangar ekki verða sér út um lyf á annan hátt en hjá fangelsislækni og heimsóknargestir vega ekki koma með lyf inn í fangelsið.

Dómarinn í málinu, Sigurður G. Gíslason, segir hins vegar að í refsiákvæðum laganna sem vísað er til í ákærunni sé ekki efnisregla um að refsivert sé fyrir gesti að koma með lyf í fangelsið. Þá hafi reglur fangelsisins ekki lagagildi og séu því ekki gild refsiheimild.

Maðurinn var því sýknaður og sakarkostnaður, tæpar 30 þúsund krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Fyrri greinUmhverfisstofnun vill hertari kröfur
Næsta greinHamar jarðaði Njarðvík