Sýkingin af völdum eiturmyndandi jarðvegsbakteríu

Matvælastofnun á Selfossi. sunnlenska.is/Helga RE

Matvælastofnun og Tilraunastöð HÍ að Keldum hafa unnið að því að greina orsakir hópsýkingar í hrossastóði á Suðurlandi og hesthúsi sömu eigenda á höfuðborgarsvæðinu, allt frá því hrossin veiktust dagana 23.-25. nóvember sl.

Í tilkynningu frá Matvælastofnun segir að allt bendi til þess að sýkingin sé af völdum eiturmyndandi jarðvegsbakteríu, Clostridium spp., en rannsóknir standa enn yfir.

Hrossin voru haldin í tveimur aðskildum hópum þar til þau voru rekin saman og sprautuð með ormalyfi 21. nóvember, en aðeins hrossin sem höfðu verið í öðru hólfinu veiktust. Bakterían virðist hafa magnast upp í því hólfi. Þessi tegund baktería myndar dvalargró og má ætla að þau hafi verið í umtalsverðu magni á feldi hrossanna og komist í gegnum húð þegar hrossin voru sprautuð með ormalyfinu.

Undir húðinni eru loftfirrðar aðstæður og þar vakna gróin til lífsins og bakterían tekur að fjölga sér og mynda eiturefni. Eitrið getur valdið bráðadauða en einnig háum hita og umfangsmiklum bólgum undir húð sem að lokum geta leitt til dauða. Mjög erfitt er að meðhöndla þessa tegund sýkinga og stöðva eitrunaráhrifin.

Ekki er vitað til þess að sambærileg hópsýking hafi komið upp hér á landi áður en ekki er um eiginlegan smitsjúkdóm að ræða þar sem Clostridium bakteríur eru hluti af umhverfi okkar, en þó í mjög lágum styrk. Gróin finnast bæði í meltingarvegi og á húð en eru alla jafna hættulaus þar sem súrefni er til staðar og þær komast ekki í gegnum órofna húð eða slímhúð.

Matvælastofnun telur hættu á að sambærilegar hópsýkingar geti komið upp víðar og varar við því að hross séu sprautuð með ormalyfi undir húð. Hestamönnum er ráðlagt að nýta ormalyf sem gefin eru í munn í samráði við sinn dýralækni.

Fyrri greinJólasveinarnir anna ekki eftirspurn á aðfangadag
Næsta greinSkoruðu ekki mark á síðustu fimm mínútunum