„Svona ógeð er ekki hægt að láta sjást í hinni frægu Black Beach“

Fjörulallarnir við hreinsunarstörf í fjörunni við Vík. Ljósmynd/Þórir N. Kjartansson

Undanfarnar tvær vikur hefur sjórinn við Vík í Mýrdal verið að róta upp rusli sem var urðað á sínum tíma á svæði þar sem sjór liggur yfir núna.

Umhverfisnefnd Mýrdalshrepps óskaði eftir sjálfboðaliðum laugardaginn 22. febrúar til að aðstoða við að hreinsa fjöruna. Þeirri hreinsun hefur verið aflýst þar sem hópur eldri borgara sem kallar sig Fjörulallar tók sig til og hreinsaði fjöruna.

„Við erum nokkur hópur sem höfum undanfarin á verið að stunda uppgræðslu með sjónum hérna sunnan þorpsins. Þetta er gert til að forðast það að sandfok nái upp í þorpið í hvössum suð-vestan áttum,“ segir Þórir Kjartansson, einn Fjörulalla, í samtali við sunnlenska.is.

„Við fylgjumst vel með fjörunni og sáum strax þegar þetta gamla rusl fór að reka en það á upptök sín í gömlum öskuhaugum hérna austur með fjörunni. Sjórinn hefur verið að brjóta land þar að undanförnu og hefur nú náð inn í þessa gömlu sorphauga sem eru frá árunum c.a. 1965-70. Sést á gömlu mjólkur-plastpokunum sem þá voru notaðir og koma nú upp úr sandinum nánast eins og þeim hafi verið hent í gær,“ segir Þórir.

„Okkur fannst ólíðandi að sjá þetta en hér niður í fjöruna fer sægur af ferðafólki dag hvern og svona ógeð er ekki hægt að láta sjást í hinni frægu Black Beach,“ segir Þórir.

Fyrir hreinsun. Ljósmynd/Þórir N. Kjartansson
Eftir hreinsun. Ljósmynd/Þórir N. Kjartansson

Öflugur hópur
Umrætt svæði er tæpir tveir kílómetrar að lengd og tók það hópinn um fimm til sex klukkustundir að hreinsa svæðið. Þórir segir að ruslið hafi fyllt að minnsta kosti sex jeppakerrur. Um tíu til tólf manns tóku þátt í hreinsunini og var hún gerð part úr degi á tveimur dögum.

Strandhreinsunin í síðustu viku er ekki eina umhverfisverkefnið sem Fjörulallar hafa tekið að sér. „Við reynum líka að hugsa um plön borð og bekki við ströndina til að gera hana meira aðlaðandi fyrir túristann, en Víkurfjara var einu sinni útnefnd sem ein af tíu fegurstu fjörum heims,“ segir Þórir en þess má geta að Fjörulallar fengu Landgræðsluverðlaunin árið 2019.

Hreinsunarstarf í Víkurfjöru. Ljósmynd/Þórir N. Kjartansson

Sóðaskapur að urða sorp
„Þetta sýnir ljóslega hverslags umhverfissóðaskapur er að urða sorp og þá sérstaklega plast. Þetta ætti skilyrðislaust að brenna og nota orkuna frá því til að hita upp á köldum svæðum,“ segir Þórir að lokum.

Í tilkynningu á heimasíðu Mýrdalshrepp lýsir sveitastjórinn Þorbjörg Gísladóttir yfir ánægju sinni með framtakið. „Við erum ótrúlega rík hérna á svæðinu að hafa íbúa sem láta sér annt um umhverfi sitt og taka málin í sínar hendur, takk kærlega þið öll sem komuð að þessu. Við hvetjum alla þá sem hafa gaman af fjörugöngu að kippa með sér poka og tína upp það rusl sem sjórinn skilar á land,“ segir Þorbjörg.

Víkurfjara í júlí í fyrra. Ljósmynd/Þórir N. Kjartansson
Fyrri greinSlasaður ferðamaður sóttur í Reykjadal
Næsta greinÖruggur sigur Hamars