„Svona boð kemur ekki oft á lífsleiðinni“

Steinar og Sveinn Ægir upplifðu mikil ævintýri í Kína. Ljósmynd/Aðsend

Sunnlendingarnir Sveinn Ægir Birgisson og Steinar Sigurjónsson fóru nýverið frækna ferð til Kína þar sem þeir kynntust landi og þjóð.

„Okkur var boðið af utanríkisdeild kínverska Kommúnistaflokksins í gegnum kínverska sendiráðið á Íslandi, að vera hluti af norrænni sendinefnd ungs fólks í stjórnmálum. Þessi nefnd hafði það hlutverk að fara til Kína á málþing með Lu Kang, sem er aðstoðarráðherra utanríkisdeildar flokksins. Hlutverk nefndarinnar var að kanna hvernig Norðurlöndin og Kína gætu unnið saman í átt að grænni og sjálfbærri framtíð,“ segir Sveinn Ægir í samtali við sunnlenska.is.

Sveinn Ægir situr í bæjarstjórn Árborgar og er formaður eigna- og veitunefndar og Steinar er varamaður í sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps.

Steinar og Sveinn Ægir nutu sín í Kína. Ljósmynd/Aðsend

Ræddu mögulega samvinnu Íslands og Kína
Bæði Sveinn Ægir og Steinar fluttu ræðu á málþinginu í Kína. „Við lögðum áherslu á grænar lausnir í orkunýtingu, framleiðslu grænnar raforku og fyrirkomulag hitaveitu á Íslandi. Einnig töluðum við um hvernig þjóðirnar gætu unnið saman að framþróun á þeim sviðum.“

Í fimmtán manna sendinefnd frá Norðurlöndunum voru fjórir Íslendingar en Noregur, Danmörk, Svíþjóð, Finnland, Færeyjar og Grænland áttu fulltrúa í nefndinni.

„Fyrirvarinn var frekar stuttur, en við fengum boð um að fara tæplega tveimur vikum áður en flogið var út. Við hugsuðum að svona boð kemur ekki oft á lífsleiðinni og maður getur ekki sagt nei. Við vissum samt ekkert hvað við vorum að fara gera,“ segir Sveinn Ægir sem sér ekki eftir að þegið boðið.

Íslenska sendinefndin með Lu Kang, aðstoðarráðherra utanríkisdeildar flokksins. Ljósmynd/Aðsend

Frábærar móttökur
Félagarnir byrjuðu á að fljúga til Peking. „Þar var tekið frábærlega á móti okkur,“ segir Steinar. „Fyrsta heila daginn í Peking sóttum við málþingið, skoðuðum Novonesis fyrirtækið sem er norrænt fyrirtæki sem starfar í Kína og skoðuðum Zhongguancun tæknisýningarmiðstöðina.“

„Næstu daga áttum við fundi með varaforseta Kommúnistaskólans, þar sem hann sagði okkur meðal annars frá sögu skólans og hvernig hann virkaði, ásamt því að við funduðum með aðstoðarforstjóra Evrópudeildar viðskiptaráðuneytisins um inn- og útflutning. Þar töluðum við fyrir mikilvægi að fá beint flug milli Íslands og Kína. Við fengum einnig að skoða safn Kommúnistaflokksins, Kínamúrinn og Forboðnu borgina, sem eru með frægustu kennileitum Peking,“ segir Steinar.

Á tæknisýningunni. Steinar og Sveinn Ægir ásamt Tryggva Hrafnssyni og Jóni Grétari Þórssyni sem fóru með þeim í ferðina. Ljósmynd/Aðsend

Heimsókn í 270.000 fm Legoverksmiðju
Frá Peking ferðuðust félagarnir með háhraðalest (e. bullet-train) til Hangzhou og segir Steinar að þó að ferðalagið hafi verið um það bil 1.400 km þá hafi það aðeins tekið fjóra og hálfan tíma. „Þess má geta að hringvegurinn í kringum Ísland er örlítið styttri en vegalengdin sem við fórum.“

„Frá Hangzhou tókum við lest til Jiaxing þar sem við skoðuðum Lego verksmiðju sem er 270 þúsund fermetrar og snæddum kvöldverð með varaborgarstjóra borgarinnar. Kommúnistaflokkurinn var stofnaður í þessari borg og við fórum á safn sem var tileinkað aðdraganda þess og fyrstu árum flokksins,“ segir Steinar en þess má geta að allar myndatökur voru bannaðar í Legoverksmiðjunni.

Félagarnir skoðuðu stærstu Legoverksmiðju í heimi. Ljósmynd/Aðsend

„Við gistum í Wuzhen, gömlum bæ sem hefur verið breytt í sjálfbæran ferðamannastað, en bærinn er oft kallaður Feneyjar austursins. Þaðan fórum við aftur til Hangzhou þar sem við fórum meðal annars á setningarhátíð og skoðuðum fjórðu Alþjóðlegu stafrænu viðskiptaráðstefnuna, sem var algjörlega mögnuð. Þar sáum við fjöldann allan af nýsköpunarfyrirtækjum, sem búa meðal annars til vélmenni til að leysa dagleg störf.“

Steinar er vel upp alinn drengur og tekur hér í höndina á vélmenni. Það er aldrei að vita nema GOGG fjárfesti í einu stykki. Ljósmynd/Aðsend

Eftir tíu daga í Kína hófst svo 29 tíma ferðalag aftur heim á Suðurlandið. Sveinn Ægir segir að fólkið frá utanríkisdeild kínverska Kommúnistaflokksinsm sem sá um að skipuleggja ferðina, tók á móti þeim og leiðsagði þeim um allt eigi mikið hrós skilið. „Þau héldu mjög vel utan um okkur allan tímann.“

Sveinn Ægir í forboðnu borginni, einnig þekkt sem Gugong. Forboðna borgin er söguleg keisarahöll í hjarta Peking. Ljósmynd/Aðsend

Blár himinn þar sem áður var mengunarþoka
Sveinn Ægir segir að það hafi komið honum á óvart hvað Kína er langt komið í nútímavæðingu og innleiðingu grænna lausna á mörgum sviðum. „Þeim hefur tekist ótrúlega vel til við að hreinsa andrúmsloftið og vötnin í og við Peking og Hangzhou til dæmis. Fyrir nokkrum árum lá mengunarþoka yfir borgunum en núna sést í bláan himinn. Þetta er risa land með íbúafjölda uppá 1,4 milljarð, sem er tvöfaldur íbúafjöldi Evrópu. Það vakti líka athygli okkar að í Kína eru 300 milljón manns á eftirlaunum og búa 90% eldri borgara alltaf í heimahúsi.“

Við sýningaropnun á tæknisýningunni. Ljósmynd/Aðsend

„Það kom einnig á óvart var hversu lítið menningarsjokk við fengum, en við áttum von á því að það yrði mun meira. Þrátt fyrir að borgirnar sem við heimsóttum hafi verið fjölmennar, þá voru þær að mörgu leyti líkar evrópskum stórborgum og manni leið mjög öruggum.“

Sveinn Ægir var ánægður með veitingarnar sem hann fékk á meðan Kínaferðinni stóð. „Maturinn var frábær. Við fengum að smakka allskonar fjölbreytta kínverska rétti og kynnast gjörólíkri matarmenningu, en borðhaldið þarna innihélt yfirleitt talsvert fleiri rétti en við erum vanir. Peking öndin er samt greinilega ennþá vinsælust í Peking,“ segir Sveinn Ægir að lokum.

Sveinn Ægir og Steinar fengu tækifæri til að smakka alls konar mat í Kína. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinHver er hetjan þín?
Næsta greinStórsigur á Ísafirði