Svipuð velta og í mars í fyrra

Selfoss fyrir miðri mynd. Ljósmynd/Steinar Guðjónsson

Alls var 89 kaupsamningum um fasteignir á Suðurlandi þinglýst í mars síðastliðnum. Þetta er svipaður fjöldi og í mars í fyrra og heildarveltan er sömuleiðis svipuð.

Af þessum 89 kaupsamningum voru 22 samningar um eignir í fjölbýli, 40 samningar um eignir í sérbýli og 27 samningar um annars konar eignir. Heildarveltan var tæplega 3,6 milljarðar króna og meðalupphæð á samning 40,1 milljón króna. Á sama tíma í fyrra var 95 kaupsamningum þinglýst og heildarveltan var tæpir 3,3 milljarðar króna.

Í Árborg, Hveragerði og Þorlákshöfn var samtals 57 kaupsamningum þinglýst. Þar af voru 17 samningar um eignir í fjölbýli, 30 samningar um eignir í sérbýli og 10 samningar um annars konar eignir.

Heildarveltan á Árborgarsvæðinu var 2,5 milljarðar króna og meðalupphæð á samning 44 milljónir króna. Þetta er örlítið minni velta en á sama tíma í fyrra þegar heildarveltan var tæpir 2,7 milljarðar króna.

Þetta kemur fram í tölum Þjóðskrár Íslands um fasteignamarkaðinn utan höfuðborgarsvæðis í mars 2020.

Fyrri greinÁfram Árborg – ákall um samráð
Næsta greinFyrstu skóflustungurnar með góðu millibili