Sviptur eftir hraðakstur á Stokkseyri

Lögreglan á Suðurlandi kærði sjö ökumenn í liðinni viku fyrir að aka bifreið próflausir. Einn þeirra reyndist ölvaður að auki en sá var á ferð um miðjan dag í Hveragerði.

Tveir ökumannanna voru á ferðinni í bílum sínum þrátt fyrir að hafa aldrei staðist bílpróf og tveir þeirra voru með útrunnin ökuskírteini.

Einn ökumaður til viðbótar var stöðvaður vegna ölvunaraksturs á Hellu á laugardagskvöld og einn var sviptur á staðnum eftir að hafa verið mældur á 68 km/klst hraða á Stokkseyri þar sem hámarkshraðinn var 30 km/klst. Honum hefur verið boðið að ljúka máli sínu með greiðslu 45 þúsund króna sektar og sviptingu ökuréttar í þrjá mánuði.

Að auki voru þrettán ökumenn kærðir fyrir hraðakstur í liðinni viku og númer voru tekin af fimm ökutækjum sem reyndust ótryggð í umferðinni.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á Suðurlandi.

Fyrri greinLeyfislaus rútubílstjóri stöðvaður í annað sinn
Næsta greinÁtta duttu í hálku og einn úr stiga