Svipaður fjöldi fæðinga – tvö Maríubörn um jólin

Það hafa sem af er ári hafa 90 börn fæðst á fæðingardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands á Selfossi sem er mjög svipað og í fyrra en þá fæddust 95 börn á deildinni.

Enn eiga fimm konur eftir að eiga, sem skráðar eru í fæðingu á þessu ári og þrjár konur eru skráðar fyrstu vikuna í janúar.

Sigrún Kristjánsdóttir, yfirljósmóðir á HSu, sagði í samtali við sunnlenska.is að ómögulegt væri að segja hvoru megin við áramótin þessar konur myndu fæða en vel megi eiga von á nýjársbarni fljótlega á næsta ári.

Tvö jólabörn komu í heiminn á HSu um helgina, annað á jólanótt og hitt í gærmorgun. Það sem gerir jólatenginguna ennþá skemmtilegri er að mæðurnar heita báðar María.