Svigrúm til viðhalds og framkvæmda

Ákveðinnar bjartsýni gætir í Skaftárhreppi, enda fjölgar fólki og eftirspurn er eftir húsnæði, að því er Eva Björk Harðardóttir, oddviti segir í samtali við Sunnlenska.

Auknar tekjur sveitarfélagsins af rekstri sveitarsjóðs og samstæðum hans gefur svigrúm til viðhalds og fjárfestinga.

Heildartekjur samstæðunnar eru rúmar 431 milljón króna. Gert er ráð fyrir um 14,5 milljón króna afgangur verði af rekstrinum á næsta ári, en samhliða auknum tekjum munu útgjöld aukast að því er fram kemur í greinargerð með áætlun.

Þar er sérstaklega tiltekið að útgjöld til félagsþjónustu hækki umtalsvert, og er það rakið til aukins kostnaðar sem lendir á sveitarfélaginu vegna þjónustu við fatlaða. Launakostnaður vex mikið á milli ára eins og hjá öðrum sveitarfélögum og fer úr 155 milljónum í 174,5 á þessu ári, og hefur hækkað um 25 milljónir á tveimur árum.

Líkt og áður sagði hefur verið talsverður uppgangur í Skaftárhreppi, sem að hluta til má rekja til aukinnar ferðaþjónustu að sögn Evu Bjarkar. Íbúar þar voru 465 í lok árs og hafði fjölgað um fimm frá í byrjun árs 2015.

Fyrri greinÞrettándagleði Hjallastefnunnar á Eyrarbakka
Næsta greinOpinn fjölskyldutími í Iðu