Sveitarstjórn ósátt við Fasteign

Sveitarstjórn Grímsnes- og Grafningshrepps er mjög ósátt við gang mála í eignarhaldsfélaginu Fasteign hf. en sveitarfélagið leigir íþróttamannvirki og skóla- og stjórnsýslubyggingu á Borg af félaginu.

Hörður Guðmundsson, varaoddviti, segir að leitað sé allra leiða til að breyta núverandi fyrirkomulagi. Leiguákvæði eru endurskoðuð á fimm ára fresti og nú eru leigusamningar vegna íþróttamannvirkja til endurskoðunar. Samþykkti sveitarstjórn, í ljósi aðstæðna og endurskoðunar á rekstri eignarhaldsfélagsins, að óska eftir því að frestur vegna endurskoðunar leiguverðs verði framlengdur um þrjá mánuði eða til loka ágúst 2011. Verði ekki af breyttu rekstrarformi Fasteignar hf. innan þessa tíma ætlar sveitarstjórn að fara fram á að leiguverð verði endurskoðað.

Segir Hörður að sveitarstjórn íhugi jafnvel að leysa til sín fasteignirnar líkt og Garðabær sé nýbúinn að gera. Aðgerðarleysið innan eignarhaldsfélagsins sé óþolandi og það sé tæknilega gjaldþrota.

Ingibjörg Harðardóttir, sveitarstjóri Grímsnes- og Grafn­ingshrepps, fór í stjórn félagsins við brotthvarf fulltrúa Garðabæjar en stærsti eignaraðilinn er Reykjanesbær með 45% eignarhlut. „Svo virðist sem að slitastjórn Glitnis hafi ekki áhuga á að gera þetta félag upp en það hlýtur að koma að því,“ segir Hörður.

Grímsnes- og Grafningshreppur er ekki eina sveitarfélagið á Suðurlandi sem leigir fasteignir af eignarhaldsfélaginu því að Sveitarfélagið Ölfus og Vestmannaeyjabær eru líka eignaraðilar að félaginu.

Fyrri greinGóður árangur Selfyssinga
Næsta greinFærin fóru í súginn