Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps krefst úrbóta strax í þágu umferðaröryggis á Þjórsárdalsvegi og mun óska eftir fundi með innviðaráðherra og forstjóra Vegagerðarinnar vegna málsins.
Þetta var samþykkt samhljóða á fundi sveitarstjórnar í síðustu viku. Að mati sveitarstjórnar þarf að taka samstundis upp fulla vetrarþjónustu á veginum ásamt því að ráðast strax í vor í úrbætur svo vegurinn sé í samræmi við kröfur Vegagerðarinnar.
Síðastliðinn mánudag varð slys á veginum þar sem stór vörubíll með tengivagni þveraði veginn í hálku og endaði út í skurði. Í bókun sveitarstjórnar kemur fram að það hafi verið mikil heppni að engin slys urðu á fólki en búið er að vara við þessum hættulegu aðstæðum í langan tíma. Ljóst sé að núverandi ástand gengur ekki lengur og bregðast þarf við.
Undanfarin ár hefur oddviti reglulega átt samskipti við hagaðila á svæðinu og Vegagerðina um ástand Þjórsárdalsvegar frá Skeiðavegi inn fyrir Árnes. Umræddur vegakafli er um 9 km langur og er eina leið íbúa um svæðið, ásamt því að allur akstur skólabíla fer um þennan vegakafla.
Í bókun sveitarstjórnar kemur fram að vegurinn sé mjórri en veghönnunarreglur kveði á um. Vegurinn sé skilgreindur sem C8 vegur hjá Vegagerðinni og eigi því að vera 8 metra breiður en í gögnum frá Vegagerðinni kemur fram að vegurinn sé einungis 6 – 7,2 metra breiður
„Ábyrgð Vegagerðarinnar er því gríðarlega mikil ef slys verða á þessum hættulega kafla, sökum þess að vegurinn er allt of mjór miðað gefnar hönnunarforsendur vegarins,“ segir sveitarstjórn.
Vegna framkvæmda á virkjanasvæði Landsvirkjuna á Þjórsár- og Tungnaársvæðinu og uppbyggingar Bláa lónsins við Fjallaböðin er ljóst að umferð muni margfaldast um Þjórsárdalsveg á næstu árum. Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps segir nauðsynlegt að bregðast strax við og tryggja sjö daga vetrarþjónustu og hálkuvarnir auk þess að hefja strax undirbúning lagfæringa á veginum svo að komið verði í veg fyrir frekari stórslys.

