Sveitarstjórn harmar afvegaleidda umræðu

Sveitarstjórn Rangárþings eystra harmar þá afvegaleiddu umræðu sem fram hefur farið vegna deiliskipulags við Seljalandsfoss. Til stendur að bæta bílastæði á svæðinu og koma upp upplýsinga- og þjónustumiðstöð.

„Sveitarstjórn bendir á að allar upplýsingar um tillögurnar og umsagnir eru á heimasíðu sveitarfélagsins. Mikils er um vert að geta gengið frá sameiginlegu bílastæði fyrir svæðið og draga bifreiðaumferð sem lengst frá fossunum Seljalandsfossi og Gljúfrabúa og færa þjóðveginn sem liggur í Dals- og Merkurhverfi og til Þórsmerkur þannig að greiðafærara verði á svæðinu,“ segir í ályktun sem samþykkt var á fundi sveitarstjórnar í dag. Þar er „afvegaleidd umræða“ um deiliskipulagið hörmuð.

Deiliskipulagstillagan er nú til yfirferðar hjá Skipulagsstofnun.