Sveitarstjórinn nokkuð sáttur

Kristófer A. Tómasson, sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, segist nokkuð sáttur með aðsókn ferðamanna í hreppinn í sumar.

Ferðamannastraumur ræðst að miklu leyti af veðri hverju sinni og í pistli í nýjasta fréttabréfi hreppsins segir Kristófer að júnímánuður hafi verið afar slakur í þeim efnum í hreppnum en úr rættist þegar líða tók á júlí.

„Ég er nokkuð sáttur með aðsókn að tjaldsvæðinu hér við Árnes í sumar. Fjöldi gistinátta þar var um 1.500 í sumar og gestir í Þjórsárstofu hátt í fjögur þúsund,“ segir Kristófer og bætir við að óhætt sé að segja að sumarið sem er að kveðja hafi verið með þeim vætusömustu sem hann hefur lifað á tæplega hálfri öld.

„Ef ekki væri til að dreifa þeirri tækni sem menn búa almennt við væri sennilega neyðarástand hjá þeim bændum sem hafa lífsviðurværi af afurðum grasbíta. Við sem ekki þurfum að þurrka hey þurfum svo sem ekkert að vera að kvarta yfir vætutíð, mér líður sjaldan illa í rigningu,“ bætir Kristófer við og horfir fullur bjartsýni inn í veturinn.

Fyrri greinBúið að ráða á fræðslusviðið
Næsta greinÞúsund manns við vígslu Hrunarétta