Sveitarfélögin eru 76

Hvergerðingum fataðist flugið í spurningleiknum Útsvari í Sjónvarpinu á föstudagskvöld eftir að dómari keppninnar dæmdi svar liðsins um fjölda sveitarfélaga á Íslandi rangt.

Hvergerðingar svöruðu því til, eins og rétt er, að sveitarfélögin væru 76 en dómari keppninnar sagði að þau væru 77. Í kjölfarið tapaði Hveragerði 50-86 gegn ríkjandi meisturum úr Garðabæ.

Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið fast á þessu máli í kjölfarið og leiðrétt rangfærslur dómarans. Hér á eftir fer frétt af heimasíðu Sambandsins:

“Dómari spurningakeppningar dæmdi svar Hvergerðinga, sem sögðu sveitarfélögin vera 76, rangt því á vef sambandsins kæmi fram að sveitarfélögin væru 77. Á vef sambandsins kemur skýrt fram að sveitarfélögin eru 76, eins og sjá má á síðu með upplýsingum um sameiningar sveitarfélaga.

Að vísu geta verið eldri upplýsingar eða gögn á vef sambandsins sem segja að á þeim tíma sem gögnin voru sett inn hafi sveitafélögin verið 77, en ef rétt er leitað á vef sambandsins eiga nýjustu upplýsingar að vera skýrar um þetta atriði.”

Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri í Hveragerði, segir á bloggi sínu að í ljósi þessa hljóti lið Hvergerðinga að komast í “umspil” þar sem þau misstu af mikilvægum stigum og voru þar fyrir utan slegin út af laginu með þessari dómgæslu.