Sveitarfélagið Ölfus með jákvæðan rekstur

Þorlákshöfn. Ljósmynd/Aðsend

Í gær var samþykkt fjárhagsáætlun fyrir Sveitarfélagið Ölfus. Í tilkynningu frá sveitarfélaginu segir að á forsendum trausts reksturs sem skilar rekstrarafgangi í bæði samstæðu og A hluta er stefnt að innviðafjárfestingum Sveitarfélagsins upp 9 milljarða á næstu 4 árum.

Samhliða er fasteignaskattshlutfall lækkað um 24,2% á næsta ári og hefur það þar með verið lækkað um 38% á fimm árum.

„Til grundvallar þessa trausta reksturs liggja stærstu einkaframkvæmdir atvinnulífsins hér á landi í sögunni þar sem fyrirhugað er að verja hátt í 200 milljörðum til verðmætasköpunar og fjölgun starfa á næstu árum,“ segir í tilkynningunni.

Ráðgert er að rekstrartekjur samstæðu verði 4,2 milljarðar króna og rekstrargjöld 3,4 milljarðar. Fjármagnsgjöld verði 209 milljónir króna og afskriftir 258 milljónir og þannig verði rekstarniðurstaða jákvæð sem nemur 333 milljónum króna. Veltufé frá rekstri verði 764 milljónir króna og fyrirhugað er að greiða langtímalán niður fyrir 240 milljónir króna.

Sé litið til A-hluta má sjá að samkvæmt áætlun verða rekstrartekjur 3,5 milljarðar króna og rekstrargjöld 3,1 milljarðar króna. Áætlunin gerir ráð fyrir að A hluti verði rekin með afgangi upp á rúmlega 160 milljónir.

„Áætlunin ber í alla staði með sér að Ölfus er í sókn enda hefur íbúum á árinu fjölgað verulega. Höfuðáhersla er því lögð á að mæta þörfum vaxandi samfélags með áherslu á fræðslu- og fjölskyldu mál svo sem styrkingu félagsþjónustu og framkvæmdum við skóla,“ segir í tilkynningunni.

Allverulegar fjárfestingar fyrirhugaðar eru fyrirhugaðar á næsta ári og má þar nefna nýjan leikskóla þar sem gert er ráð fyrir 450 milljóna fjárfestingu á næsta ári og 300 milljónum árið 2024. Samtals eru fyrirhugaðar fjárfestingar í fræðslu- og uppeldismálum upp á 1,4 milljarða króna á næstu 4 árum.

Fyrri greinÞórsarar á botninum
Næsta greinBanaslys á Móbergi til rannsóknar