Sveitarfélagið styrkir fjölskyldu Heklu Bjargar

Bæjarráð Ölfuss samþykkti samhljóða á fundi sínum í síðustu viku að styrkja fjölskyldu Heklu Bjargar Jónsdóttur um 200 þúsund krónur en Hekla Björg fór skyndilega í hjartaaðgerð í Boston í desember síðastliðnum.

Hekla Björg er 14 ára gömul, dóttir Önnu Kristínar Gunnarsdóttur og Jóns Haraldssonar. Hún greindist við fæðingu með hjartagalla og hefur farið í nokkrar aðgerðir til Boston vegna þess.

Í nóvember síðastliðnum veiktist Hekla alvarlega og var í í kjölfarið send í skyndi til Boston þar sem skipt var um gjafaæð og hjartaloku. Ferðin gekk vel en var mjög kostnaðarsöm fyrir fjölskylduna.

Í ljósi þessara erfiðu aðstæðna samþykkti bæjarráð Ölfuss samhljóða að styrkja fjölskylduna með 200 þúsund króna fjárframlagi.

Fyrri greinSlök byrjun í seinni hálfleik gerði eftirleikinn erfiðan
Næsta greinVill reisa vatnagarðinn í Ölfusinu