Sveitarfélagið lét stöðva framkvæmdir

Bæjaryfirvöld í Árborg fengu lögfræðiaðstoð til að stöðva framkvæmdir Vegagerðarinnar við umferðaeyjar og þrengingar á þremur stöðum á Austurvegi á Selfossi í byrjun vikunnar.

Voru bæjaryfirvöld ósátt við að Vegagerðin hafi hafið framkvæmdir án þess að hafa sótt um formlegt leyfi. Fulltrúi Vegagerðinnar taldi hins vegar að sátt væri um framkvæmdirnar eftir viðræður við bæjaryfirvöld fyrr í sumar. Bæjaryfirvöld settu þá fram athugasemdir við hönnun mannvirkjanna og Eyþór Arnalds, formaður bæjarráðs Sveitarfélagsins Árborg, segir að þeim hafi aldrei verið svarað og svo hafi framkvæmdir hafist í síðustu viku.

Bæjaryfirvöld kröfðust þess strax að framkvæmdir yrðu stöðvaðar án tafar og fengu til þess aðstoð lögfræðings sveitarfélagsins.

Bæjarlögmaður hefur málið nú í sinni umsjá og er honum ætlað að sjá um samskipti við Vegagerðina. Áður en sveitarfélagið lét stöðva framkvæmdirnar var búið að steypa kanta og setja upp merkingar.

Sjá nánar í Sunnlenska fréttablaðinu

Fyrri greinHeitavatnslaust í Þorlákshöfn
Næsta greinFlytja strætóskýli frá Sunnulæk