Sveitarfélagið vill fresta friðlýsingu

Byggðaráð Bláskógabyggðar leggur til að beðið verði með friðlýsingu á landi ríkisins við Geysi í Haukadal á meðan leitað er samninga um allt svæðið.

Unnið er að lagfæringum á hverasvæðinu. Á vegum Umhverfisstofnunar og Ferðamálastofu er unnið að betri afmörkun göngustíga á hverasvæðinu við Geysi og uppsetningu aðvörunarskilta. Settar eru nýjar kaðalgirðingar meðfram göngustígum og aðvörunarskilti á staurana.

Ríkið á hverina Geysi, Strokk og Blesa og svæðið á milli þeirra. Hinn hluti hverasvæðisins er í eigu fjölmargra einstaklinga, eigenda og erfingja jarðanna í kring. Umhverfisstofnun hefur undirbúið friðlýsingu á landspildu ríkisins og hefur kynnt hugmyndir sínar fyrir sveitarfélaginu og landeigendum, segir í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.