Sveitadagurinn „Borg í sveit“ haldinn 28. maí

Laugardaginn 28. maí verður sveitadagurinn „Borg í sveit – alvöru sveitadagur“ haldinn í annað skipti í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Þann dag munu fyrirtæki, bændur og einstaklingar í sveitarfélaginu taka höndum saman, hafa opið hjá sér og bjóða gesti og gangandi velkomna í heimsókn.

Fjöldi býla munu bjóða gesti velkomna að skoða dýrin í sveitinni í sínu náttúrulega umhverfi, hægt verður að skoða handverk, kíkja í súpu, fá sér ástarpunga og kaffi og ná sér í heimabakað á kökubasar.

Pizzavagninn verður á staðnum, fjöldi verktaka mætir í Félagsheimilið Borg og kynna sig og fyrirtækin sín og hægt verður að skoða sameinaðan leik- og grunnskóla.

Það er frítt í sund á Borg og Ingó veðurguð mun stýra sundsöng í sundlauginni milli 17 og 18.

Um kvöldið verða svo tónleikar í Félagsheimilinu Borg kl 20:30 þar sem Jón Ólafsson og Guðrún Gunnarsdóttir leika Af fingrum fram. Einstök kvöldstund þar sem blandað er saman tónlist og spjalli.

Fyrri greinAníta og Tryggvi efnilegustu unglingarnir
Næsta greinBannað að leigja út íbúðir til íbúðargistingar á Klaustri