Sveitadagurinn „Borg í sveit“ haldinn 28. maí

Laugardaginn 28. maí verður sveitadagurinn „Borg í sveit – alvöru sveitadagur“ haldinn í annað skipti í Grímsnes- og Grafningshreppi.

Þann dag munu fyrirtæki, bændur og einstaklingar í sveitarfélaginu taka höndum saman, hafa opið hjá sér og bjóða gesti og gangandi velkomna í heimsókn.

Fjöldi býla munu bjóða gesti velkomna að skoða dýrin í sveitinni í sínu náttúrulega umhverfi, hægt verður að skoða handverk, kíkja í súpu, fá sér ástarpunga og kaffi og ná sér í heimabakað á kökubasar.

Pizzavagninn verður á staðnum, fjöldi verktaka mætir í Félagsheimilið Borg og kynna sig og fyrirtækin sín og hægt verður að skoða sameinaðan leik- og grunnskóla.

Það er frítt í sund á Borg og Ingó veðurguð mun stýra sundsöng í sundlauginni milli 17 og 18.

Um kvöldið verða svo tónleikar í Félagsheimilinu Borg kl 20:30 þar sem Jón Ólafsson og Guðrún Gunnarsdóttir leika Af fingrum fram. Einstök kvöldstund þar sem blandað er saman tónlist og spjalli.