Sveinn og Katrín fengu Landbúnaðarverðlaunin

Landbúnaðarverðlaun 2012 voru afhent við setningu Búnaðarþings í gær en verðlaunin hlutu bændurnir í Skarðaborg í Reykjahverfi og í Reykjahlíð á Skeiðum.

Steingrímur J. Sigfússon, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, afhenti verðlaunin.

Í Reykjahlíð á Skeiðum stunda þau Sveinn Ingvarsson og Katrín Andrésdóttir kúabúskap. Reykjahlíð var stofnuð úr landi Reykja árið 1948 og kom Sveinn upphaflega að búskapnum ásamt foreldrum sínum fyrst árið 1983.

Árskýr eru um 60 og heildarfjöldi nautgripa um 130. Framleiðsluréttur er rúmlega 400 þúsund lítrar. Reykjahlíð hefur síðustu ár verið eitt af nythæstu búum landsins, en meðalnyt á kú hjá þeim er tæplega 8 þúsund lítrar.

Auk þess að stunda kúabúskap eru þau hjónin með sauðfjárrækt í smáum stíl og eru að þreifa fyrir sér við heimavinnslu mjólkurafurða og sölu á þeim til neytenda.

Í Reykjahlíð hefur skjólbeltarækt verið stunduð í töluverðum mæli. Búið tekur einnig þátt í tilraunaverkefni Garðyrkjufélagsins og Landbúnaðarháskólans um ræktun ávaxtatrjáa.