Sveinn og Áslaug sæmd heiðursverðlaunum garðyrkjunnar

Áslaug og Sveinn tóku við verðlaununum á fjarfundi heima á Espiflöt í dag. Ljósmynd/Espiflöt

Sveinn Sæland og Áslaug Sveinbjörnsdóttir á Garðyrkjustöðinni Espiflöt í Biskupstungum voru sæmd heiðursverðlaunum garðyrkjunnar í dag á aðalfundi Sambands garðyrkjubænda.

Fundurinn og verðlaunaathöfnin fór fram í fjarfundi og sátu þau Áslaug og Sveinn heima á Espiflöt og tóku við verðlaununum.

Viðurkenninguna fengu þau sem framúrskarandi ræktendur en um verðlaunahafana sagði Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, að þar væri um að ræða ræktendur sem hafa verið leiðandi í ræktun á sínu sviði og byggt upp fyrirtæki sem er einstakt í sinni röð fyrir gæðaframleiðslu, gott orðspor og síðast en ekki síst öflugt starf í félagsstörfum garðyrkjunnar. „Þar er sannarlega um að ræða dýrmætt framlag sem munað hefur um,“ sagði Gunnar.

„Í höndum þessara framleiðenda hafa vörur fyrirtækisins fengið skýra aðgreiningu fá öðrum vörum á markaði og ekki síst við innfluttar afurðir. Öflug kynning og starfsemi í fyrirtæki sem býður gesti og gangandi velkomna eftir atvikum er líka vel til þess fallinn að auka áhuga og skilning á íslenskri garðyrkju,“ sagði Gunnar ennfremur.

Bændablaðið sömuleiðis verðlaunað
Auk Sveins og Áslaugar var Bændablaðið sömuleiðis sæmt heiðursverðlaun garðyrkjunnar. Í núverandi mynd kom Bændablaðið fyrst út fyrir 25 árum, hinn 14. mars 1995. Nafn blaðsins á sér þó lengri forsögu, en það var snemmsumars 1987 að nokkrir bændasynir á mölinni með Tungnamanninn Bjarna Harðarson í fararbroddi komu sér saman um að stofna til blaðaútgáfu fyrir bændur landsins. Blaðið var nefnt Bændablaðið og á bak við það stóð félagið Bændasynir hf. Blað þetta kom út í tæplega 8 ár og var meðal annars gefið út frá Einarshöfn á Eyrarbakka á tímabili. Síðasta árið var blaðið gefið út af Jóni Daníelssyni að Tannastöðum í Hrútafirði sem seldi Bændasamtökum Íslands nafnið í árslok 1994.

Eigendur Espiflatar voru einnig heiðraðir í vor en þá hlaut garðyrkjustöðin landbúnaðarverðlaunin 2020 á Búnaðarþingi. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinElvar Örn félagsmaður mánaðarins
Næsta grein32 í einangrun á Suðurlandi