Sveinn Ægir sækist eftir 2. sætinu

Sveinn Ægir Birgisson. Ljósmynd/Aðsend

Sveinn Ægir Birgisson, formaður bæjarráðs Árborgar, býður sig fram í 2. sætið í prófkjöri D-listans í Árborg fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar.

„Það hefur verið mér gríðarlegur heiður að fá að starfa fyrir íbúa í Árborg síðustu fjögur ár. Þrátt fyrir að ég verði 28 ára í næsta mánuði eru ellefu ár síðan ég fór að fylgjast af krafti með málefnum sveitarfélagsins. Fyrst í ungmennaráði Árborgar, síðan sem varabæjarfulltrúi 2018–2022 og loks sem bæjarfulltrúi og formaður bæjarráðs,“ segir Sveinn Ægir meðal annars í framboðstilkynningu sinni.

„Ég tel að reynsla mín og þekking á sveitarfélaginu muni nýtast vel, enda iðar samfélagið okkar af lífi og hér liggja fjölmörg tækifæri. Framtíðarkynslóðir vilja setjast að í Árborg og það sjáum við glöggt í eftirspurn eftir okkar sterku leik- og grunnskólum, ásamt öflugu og fjölbreyttu íþróttalífi. Þessu fylgja þó einnig áskoranir og við þurfum að standa vörð um þá dýrmætu þjónustu og sérstöðu sem samfélagið okkar hefur upp á að bjóða,“ segir Sveinn Ægir ennfremur og bætir við að sem formaður bæjarráðs og formaður eigna- og veitunefndar hafi hann góða innsýn í það sem þarf að gera til að ná enn lengra og gera Árborg að enn sterkara og framúrskarandi sveitarfélagi.

Prófkjör Sjálfstæðisflokksins í Árborg fer fram laugardaginn 7. mars næstkomandi.

Fyrri greinSöfnuðu tæpri milljón fyrir Sjóðinn góða