Svanborg yfirljósmóðir hættir störfum

Svanborg Egilsdóttir, ljósmóðir á Selfossi, hætti nýverið störfum við Heilbrigðisstofnun Suðurlands eftir 30 ára starf.

Síðustu 10 árin starfaði Svanborg sem yfirljósmóðir á fæðingardeildinni. Henni var haldið kveðjuhóf 30. mars sl. af samstarfsfólki sínu og ljósmæðrum á deildinni og færður þakklætisvottur fyrir störfin.

Svanborg hefur á ferlinum tekið á móti 5-600 börnum „eða eins og einu sveitarfélagi“, eins og hún orðaði það svo skemmtilega sjálf. Fyrsta barnið sem hún tók á móti á HSu, fæddist 8. apríl 1982.

Það var fyrir framgöngu Svanborgar að stórt baðkar var sett upp á fæðingardeildinni á Selfossi, fyrir vatnsfæðingar. Í kveðjuhófinu rifjaði Svanborg upp, að þegar hún gekk milli manna til að afla fjármagns fyrir framkvæmdinni, var hún spurð hvort hún ætlaði að fara að framleiða sunnlenska sundmenn og einhver spurði hvernig hún og læknirinn ætluðu að komast fyrir ásamt konunni í baðkarinu.

„Margar sunnlenskar konur og feður eiga góðar minningar um þessa ákveðnu en jafnframt yndislegu ljósmóður og hugsa til hennar með þakklæti í huga. Það gerir líka allt hennar samstarfsfólk, því Svanborg var góður samstarfsmaður og vinur,” segir í frétt á heimasíðu HSu.