„Svæðið einstakt og náttúran stórbrotin“

Guðlaugur Þór og Katrín ásamt Ástu Stefánsdóttur, sveitarstjóra Bláskógabyggðar og Helga Kjartanssyni, oddvita. Ljósmynd/Aðsend

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra tóku þátt í athöfn við Geysi í morgun, þar sem umhverfis-, orku- og loftslagráðherra staðfesti stjórnunar- og verndaráætlun Geysissvæðisins.

„Friðlýsing Geysisvæðisins var mikilvægt skref í náttúruvernd á Íslandi, enda er svæðið einstakt og náttúran stórbrotin. Verndaráætlunin sem er staðfest í dag tryggir að komandi kynslóðir fái að njóta svæðisins eins og við fáum að gera í dag,“ segir Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra.

Geysissvæðið í Haukadal var friðlýst 17. júní árið 2020. Það er eitt þekktasta goshverasvæði jarðar og er einstakt á heimsvísu, en friðlýsingin á að tryggja vernd jarðminja, örvera og gróðurs. Geysissvæðið nýtist jafnframt til vísindarannsókna og fræðslu, ásamt því að bjóða upp á möguleika til útivistar og ferðaþjónustu, en í stjórnunar- og verndaráætlun svæðisins er m.a. fjallað um fræðslu og miðlun upplýsinga, verndaraðgerðir og aðgengi ferðamanna.

Tryggja að verndargildi svæðisins haldist
Stjórnunar- og verndaráætlun er eins konar leiðarljós fyrir þá aðila sem stýra svæðinu, sem og þá sem vilja vera þar með starfsemi eða þurfa samþykki fyrir aðgerðum og viðburðum.

„Í stjórnunar- og verndaráætluninni eru kynntar leiðir til að tryggja að markmið friðlýsingarinnar nái fram að ganga. Við uppbyggingu innviða á að taka tillit til deiliskipulags sem byggir á vinningstillögu „Hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun Geysissvæðisins í Haukadal“ sem nú er unnið að fullnaðarhönnun á og á uppbygging innviða á svæðinu að leiða gesti um svæðið og tryggja að verndargildi þess haldist,“ segir Guðlaugur Þór, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.

Þekktar menningarminjar á svæðinu
Fjölmargir hverir og laugar eru á Geysissvæðinu og eru goshverirnir Geysir og Strokkur þeirra þekktastir. Á svæðinu er einnig hverahrúður á stóru samfelldu svæði, sem og yfir 125 tegundir háplantna og yfir 20 mosategundir. Á svæðinu eru einnig þekktar menningarminjar, en við síðustu ríkisstjórnarskipti fluttist málaflokkur menningarminja til umhverfis- orku og loftslagsráðuneytisins. Eru konungssteinarnir þrír sem reistir voru til minja um heimsóknir þeirra Kristjáns IX árið 1874, Friðriks VIII árið 1907 og Kristjáns X árið 1921 þeirra þekktastar.

Frá undirrituninni á Geysissvæðinu í morgun. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinEinar framlengir til tveggja ára
Næsta grein„Ég elska að vera á Selfossi“