Svaðbælisá nær upp undir brúargólf

Starfsmenn Suðurverks hafa í dag unnið að því að dýpka farveg Svaðbælisár undir Eyjafjöllum, en mikið vatn er í ánni og nær vatnsborðið alveg upp að brúargólfi.

Ólafur Eggertsson, á Þorvaldseyri, segir á mbl.is að ekki hafi flætt yfir hringveginn en litlu hafi mátt muna.

Mikið er búið að rigna á Suðurlandi síðustu sólarhringa. Svaðbælisá ber ennþá mikla ösku sem féll í Eyjafjallagosinu niður eftir ánni. Ólafur segir að áin hafi líka étið úr varnargörðum og borið efnið niður að brúnni þar sem er tiltölulega flatt.

Svaðbælisá flæddi yfir bakka sína í fyrra og segir Ólafur greinilegt að menn verði að vera áfram á varðbergi til að tryggja að ekki verði tjón á samgöngumannvirkjum.