Svaðbælisá færð til að auka strauminn

Svaðbælisá verður færð á tæplega eins kílómetra kafla neðan Hringvegarins, í landi jarðarinnar Önundarhorns. Leirnavegur sem liggur með ánni verður einnig færður á kafla.

Ríkissjóður hefur keypt jörðina Önundarhorn sem varð einna verst úti í flóðunum eftir gosið í Eyjafjallajökli. Tilgangurinn var meðal annars að búa til nýjan farveg fyrir Svaðbælisá.

Straumur er lítill í Svaðbælisá, neðan við brúna á hringveginum, og sest þar aur og aska sem áin ber með sér úr fjöllum. Hefur stöðugt þurft að grafa upp úr farveginum til að koma í veg fyrir að áin taki ekki brúna af.

Jafnframt verður settur grjótgarður á vestanverðan varnargarðinn neðan við brúna til að móta betur farveginn sem þar er kominn.

Greint er frá þessu í Morgunblaðinu í dag.