SUS þing í Hveragerði um helgina

41. Sambandsþing SUS verður haldið um næstu helgi á Hótel Örk í Hveragerði og hefst á föstudag.

Þar koma saman ungir sjálfstæðismenn af öllu landinu til að taka þátt í málefnastarfi og kjósa nýjan formann og stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna.

Að sögn Friðriks Sigurbjörnssonar, varaformanns Asks, félags ungra sjálfstæðismanna í Hveragerði, er helgin er þéttskipuð af fjölbreyttri og fræðandi dagskrá. Þar má meðal annars nefna golfmót, koktelboð og skoðunarferð um Hveragerði. Hápunktur helgarinnar er svo hátíðarkvöldverður í tilefni af fertugs afmæli Asks og þangað vill Askur bjóða öllum þeim sjálfstæðismönnum sem hafa áhuga á að taka þátt í gleðinni.

Nánari upplýsingar um kvöldverðinn má nálgast með að senda tölvupóst á askurfus@gmail.com.

“Sambandsþing SUS eru haldin annað hvert ár og er það mikill heiður fyrir Ask að fá að vera gestgjafi þingsins í ár. Um 11.000 manns eru skráðir í Samband ungra sjálfstæðismanna og hátt í fimm hundruð manns eiga sæti á sambandsþinginu, því er búist við gífurlegum fjölda þegar kosningar til formanns og stjórnar fara fram á sunnudaginn, en í ár eru tvö framboð til formanns SUS komin fram,” sagði Friðrik í samtali við sunnlenska.is.

Úr suðurkjördæmi eiga fimm aðilar sæti í stjórn SUS og hefur Helgi Ólafsson úr Vestmannaeyjum gefið kost á sér sem fyrsti varaformaður SUS.