Sunnlendingar eiga sinn fulltrúa í Jólalagakeppni Rásar tvö en lagið Jólagjöfin í ár! eftir Björgvin Þ. Valdimarsson er eitt þeirra fimm laga sem er komið í úrslit.
Björgvin samdi lag og texta en Berglind Magnúsdóttir flytur lagið ásamt Karlakór Selfoss, félögum úr Karlakór Reykjavíkur og Lúðrasveit Þorlákshafnar.
„Það er búið að vera býsna langt ferli á bakvið þetta nýja jólalag mitt,“ segir Björgvin í samtali við sunnlenska.is.
Örlagaríkir afmælistónleikar
Björgvin segir að upphafið að jólalagaævintýrinu megi rekja til þess að hann sótti tónleika með Karlakór Selfoss síðastliðið vor. „Mér var boðið á 60 afmælistónleika Karlakórs Selfoss vegna þess að ég spilaði undir hjá kórnum í nokkur ár þegar ég strákur. Þeir buðu Karlakór Reykjavíkur og Lúðrasveit Þorlákshafnar að taka þátt í tónleikunum. Kórarnir stóðu sig vel en ég verð að segja að ég varð sérstaklega hrifinn að frammistöðu lúðrasveitarinnar og ég hugsaði með mér að ég yrði að búa til eitthvert verkefni með þessum aðilum.“
„Ég fór að athuga hvort ég ætti í fórum mínum einhverja hugmynd að lagi og texta sem ég gæti unnið með, en ég skrifa oft niður hjá mér hugmyndir sem ég fæ í kollinn, sem ég vinn svo seinna áfram með. Viti menn, ég datt niður á eina sem mér fannst geta passað í þetta verkefni.“

Hugmyndin kviknað eftir tippavinafund
Björgvin segir að hugmyndin að þessu nýja jólalagi hafi kviknað eitt kvöldið fyrir síðustu jól.
„Ég var að koma heim af tippavinafundi en við erum fimm vinir sem tippum saman í enska boltanum aðra hverja viku. Þegar ég kom heim þá settist ég við flygilinn og spilaði hugmyndina fyrir konuna mína.“
„Eftir afmælistónleika karlakórsins í vor fór ég að þróa þessa hugmynd áfram og þegar lagið var fullmótað og textinn klár, þá útsetti ég lagið fyrir karlakór og lúðrasveit. En eins og allir vita þá getum við karlmenn ekki kvennmannslausir verið og því hófst leitin að góðri söngkonu sem gæti tekið að sér aðalhlutverkið.“
„Það komu mörg nöfn upp í hugann en mig langaði að fá einhverja sem tengdist fæðingarbæ mínum. Ég fór því á netið og gramsaði á YouTube og viti menn mér leist strax vel á söngkonu sem hafði tekið þátt í The Voice Ísland og ekki var það verra að það stóð að hún byggi á Selfossi. Þessi söngkona heitir Berglind Magnúsdóttir og ég hafði samband við hana og hún tók strax mjög vel í að taka þátt í þessu verkefni ef af því yrði.“
„Þá var komið að því að hafa samband við stjórnendur og formenn karlakóranna og lúðrasveitarinnar. Þau tóku vel í þetta og boltinn fór að rúlla.“
Úrslit tryggja ákveðna spilun
Í upptökuferlinu fékk Björgvin mikla hvatningu frá öllum aðilum að senda lagið inn í Jólalagakeppni Rásar 2 og lét hann til leiðast. „Það er mikið framboð af nýrri tónlist í dag og því erfitt að koma lagi í spilun á útvarpsstöðvunum en ef maður er svo heppinn að komast í úrslit þá tryggir það ákveðna spilun.“
„Ég hef verið að gefa út eitt og eitt jólalag og Jólagjöfin í ár! er það það áttunda í röðinni. Ég hef áður sent þrjú lög í keppnina og tvö þeirra, auk þessa lags, hafa komist í úrslitakeppnina, en annað þeirra lenti í 2. sæti ekki alls fyrir löngu. Ég hef fengið til mín úrvals söngvara til að syngja þessi lög mín og má þar nefna Siggu Beinteins, Stefaníu Svavars, Regínu Ósk, Gissur Pál, Dag Sigurðar og Helgu Margréti Clarke. Öll þessi jólalög eru á playlista sem heitir Ný jólalög – Björgvin Þ. á heimasíðunni minni á Spotify.“

Rammselfysskt myndband
Það er óhætt að segja að Björgvin hafi farið alla leið með nýja jólalagið en hann hefur látið gera myndband við lagið sem tekið var upp í nýja miðbænum á Selfossi. „Það var vinur minn Selfyssingurinn Roar Aagestad sem gerði það og er ég mjög ánægður með útkomuna.“
„Ég hef fengið mjög jákvæð viðbrögð bæði við laginu og myndbandinu og það væri gaman að sem flestir myndu gefa sér tíma til að kjósa lagið, það er að segja ef fólki líst vel á það,“ segir Björgvin hógvær.
Hefur alltaf upplifað jólin í gegnum tónlistina
Það er í nógu að snúast hjá Björgvini þessi misserinn en auk þess að vera að fylgja eftir nýja jólalaginu sínu þá er hann að undirbúa afmælistónleika næsta vor.
„Ég hef alltaf upplifað jólin fyrst og fremst í gegnum tónlistina þar sem ég hef mikið fengist við að stjórna kórum í gegnum tíðina, en hin síðari ár snúast jólin meira og meira um barnabörnin.“
„Haustið er búið að vera mjög annasamur tími hjá mér en auk þess að vinna að útgáfu jólalagsins þá hef ég einnig verið að undirbúa afmælistónleika sem verða haldnir á Selfossi næsta vor í tilefni af stórafmæli mínu. Þar munu kórar og söngvarar flytja bæði nýja og eldri tónlist eftir mig við undirleik Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Eitt er þó víst að nýja jólalagið mitt Jólagjöfin í ár! verður ekki flutt þar,“ segir Björgvin kátur að lokum.
Hægt er að kjósa Jólagjöfin í ár! hér.

