Kristján Eldjárn Þóroddsson, forritari á Selfossi, og Ludovic Cleroux eru mennirnir á bak við nýstofnað sunnlenskt hugbúnaðarfyrirtæki Moonlight Projects. Fyrirtækið hannar afgreiðslulausnir fyrir fyrirtæki í veitingageiranum sem hlotið hefur mikla athygli síðan það var gefið út fyrr á þessu ári.
Kristján bjó í Montreal í Kanada ásamt fjölskyldu sinni frá 2016-2023, þar sem hann vann sem forritari fyrir íslenskt og kanadískt hugbúnaðarfyrirtæki. Kristján hélt áfram að vinna í fjarvinnu eftir að heim var komið en í upphafi þessa árs vatt hann kvæði sínu í kross, stofnaði sitt eigið fyrirtæki, Moonlight Projects, ásamt félaga sínum Ludovic Cleroux.
„Við Ludovic unnum saman úti í Kanada og eftir að ég flyt aftur heim vorum við að kasta boltum á milli okkar hvort við ættum að fara að gera eitthvað saman og gera eitthvað nýtt,“ segir Kristján í samtali við sunnlenska.is.

Gengið vel frá fyrsta degi
„Við sáum að það var skýr þörf á betra og einfaldara afgreiðslukerfi fyrir veitingastaði á Íslandi. Sem myndi nýta sér nýjustu tækni í afgreiðslulausnum ásamt því að hafa stuðning og tengingar við íslenskar greiðslulausnir og bókhaldskerfi.“
„Við höfum verið með kerfið sem við köllum Resto í notkun hjá nokkrum veitingastöðum þetta árið og núna erum við með gott handfylli af nýjum veitingahúsum sem eru að taka lausnina í notkun, þannig að þetta hefur bara gengið mjög vel og viðtökur góðar“

Hnökralaus afgreiðsla
Í mjög einföldu máli þá er Resto afgreiðslukerfið fyrir veitingahús og einfaldar það þjónum að taka niður pantanir á skilvirkari og hraðari hátt.
„Þetta kerfi er hugsað fyrir rekstraraðila, sérstaklega í veitingageiranum en líka fyrir starfsfólkið sjálft sem sér um að afgreiðslan sé hnökralaus og gangi fljótt fyrir sig. Kerfið þykir sérstaklega einfalt í notkun og starfsmenn þurfa nánast enga þjálfun á kerfið,“ segir Kristján.
Hvað er það sem gerir ykkar lausn frábrugðna öðrum lausnum? „Áður en ég fór í tækni- og forritunarbransann, rétt eftir aldamótin, starfaði ég sem matreiðslumaður. Ég skil verklagið og þekki álagið sem þjónustufólk í veitingageiranum þarf að standa undir. Okkar lausn hjálpar þjónustufólki við störfin og gerir einnig upplifun gesta betri. Konan mín, Silja Hrund Einarsdóttir, sér um reksturinn á Konungskaffi sem við eigum hér í miðbæ Selfoss. Verandi eigandi að veitingahúsi gefur manni sérstakt innsæi fyrir kröfur sem svona kerfi þarf að uppfylla.
Miðbæjarkortið hitti í mark
Kristján og Ludovic hafa líka verið að vinna að gjafakortalausn smartcard.is sem Miðbær Selfoss tók nýlega í gagnið. „Þetta var mjög skemmtilegt verkefni og lausn sem hentar Miðbæ Selfoss sérstaklega vel. Það sem gerir þetta gjafabréfakerfi svolítið sérstakt er að þú kaupir eitt gjafabréf fyrir einhverja upphæð og svo virkar það í 25 verslunum og veitingastöðum hér í miðbænum.“
„Það sem er sérstaklega skemmtilegt er hvað viðtökurnar hafa verið svakalega góðar. Miðbæjarkortið er frábær jólagjöf sem er sannarlega að slá í gegn. Fyrirtæki hér í bæjarfélaginu hafa verið dugleg að kaupa þessi kort fyrir starfsmannagjafir og styrkja þá um leið verslun í heimabyggð. Þessi kort eru þannig að þú verslar á netinu, prentar út eða hleður því í símaveskið (e. Google, Apple Wallet). Kortið er gagnvirkt þannig að þú sérð alltaf inneignina í rauntíma. En svo er líka hægt að kaupa miðbæjarkortið sem prentað gjafakort, ef fólk vill frekar gefa það þannig heldur en rafrænt gjafakort.“

Spennandi tímar framundan
Kristján er bæði ánægður og þakklátur fyrir þær góðar viðtökur sem Resto og SmartCard.is hefur fengið á stuttum tíma.
En hvað kom til að þið stofnið hugbúnaðarfyrirtæki hér í Árborg? „Þetta er frábær staður og mikill uppgangur hér í bæjarfélaginu. Árborg er ekkert síðri staður til að reka hugbúnaðarfyrirtæki frekar en Montréal. Það urðu til margar vel slípaðar vinnuaðferðir til að vinna í hópum í fjarvinnu í Covid og við Ludovic höfum nýtt okkur það. Þó Ludovic starfi aðallega frá Montréal þá hefur hann komið hingað í þrjár heimsóknir það sem af er þessu ári, honum líst vel á land og þjóð, eins og maður segir, og hver veit nema hann eigi eftir að flytja og setjast að í Árborg.“
„Framtíðarmarkmiðið er að bjóða upp á bestu afgreiðslulausn sem völ er á. Ekki bara á Íslandi heldur líka erlendis, við horfum til Kanada með það. Það er klárlega þörf allstaðar,“ segir Kristján að lokum.
