Sunnlenskir hnappar í útrás

Mæðgurnar Elín Guðmundsdóttir og Hjördís Þorfinnsdóttir standa á bak við vörumerkið Roð.

Roð eru hnappar framleiddir úr íslensku sjávarroði.

„Við fjárfestum í hnappagerðarvél fyrir fjórum árum síðan til að hafa möguleikann á því að gera hnappa fyrir kjólana okkar í Hosiló, í þeim tilfellum sem þá þurfti. Það má segja að við féllum fyrir hnappagerðinni og fórum að leika okkur með ýmis efni og prófa okkur áfram,“ segir Elín í samtali við sunnlenska.is en þær mæðgurnar reka kjólabúðina Hosiló á Selfossi.

Elín segir að þær mæðgur hafi fljótlega prufað að nota fiskiroð til að búa til hnappa. „Það reyndist mjög fallegt, sérstaklega á prjónaðar og heklaðar vörur. Fiskiroðið er íslensk framleiðsla frá Sjávarleðri á Sauðárkróki,“ segir Elín.

„Undanfarin ár höfum við selt hnappana í versluninni okkar, Hosiló og í Gestastofu Sútarans á Sauðárkróki. Auk þess höfum við selt hnappana á mörkuðum víða um landið, heimsótt prjónaklúbba og selt í gegn um netið til Ástralíu, Bandaríkjana, Bretlands og víðar,“ segir Elín.

„Gaman að segja frá því að við vorum einmitt að senda út hnappa til konu í Ohio sem ætlar að nota þá í hnappa-áhugamannakeppni,“ segir Elín og hlær en hún segist skilja mjög vel svona „hnappadellu“.

Hnapparnir hafa vakið mikla athygli, en þeir þykja mjög fallegir á t.d. lopapeysur. Elín segir að náttúruleg áferðin falli vel að prjónaáferðinni. „Við vinnum aðallega með laxaroð en bjóðum einnig upp á hlýra og karfa. Við höfum gríðalegt litaúrval og hnapparnir fást í fimm mismunandi stærðum; frá 15 mm í þvermál upp í 38 mm.“

Í vor fengu þær mæðgur styrk frá Atvinnuþróunarsjóði kvenna til að hanna útlit vörumerkisins „Roð“ og markaðssetja hnappana og ísskápssegla sem þær hafa nýlega hafið framleiðslu á. Elín segir þetta gefa þeim tækifæri til að vekja athygli á vörunum þeirra og selja þær víðar.

Að sögn Elínar er markmiðið er að hefja sölu á hnöppunum í prjónavöruverslunum strax í haust og koma ísskápsseglunum á markað í sumar. „Okkur var einnig boðið að taka þátt í prjónahátíð í Danmörku, sem haldin verður í september. Þar verður prjónamenning Íslendinga kynnt þar sem lopaframleiðendur, prjónamynsturshönnuðir og handverksfólk kynnir vörur sínar og þjónustu,“ segir Elín að lokum.

Facebooksíðu Roð má finna hér og á næstu dögum fer vefsíðan rod.is í loftið.

Fyrri greinHesthús stórskemmt eftir bruna
Næsta greinMýrdalsjökull skelfur – Sterk fýla af jökulánum