Sunnlenskir grillmeistarar í harðri keppni

Kosning er hafin í keppninni Grillsumarið mikla en meðal liða í keppninni eru Sunnlendingarnir í grillklúbbnum „Hraglandi Úrfelli“.

Liðið skipa þeir Elvar Þrastarson, Hjalti Rúnar Oddsson og bræðurnir Kolbeinn Karl og Magnús Már Kristinssynir. Það eru Innnes og mbl.is sem standa að keppninni en liðin fengu afhenta matarkörfu og þurftu að grilla upp úr henni tvo rétti.

„Hún Laufey vinkona okkar skráði okkur til leiks án þess að láta okkur vita. Hún var búin að nefna þetta við okkur en við gerðum aldrei neitt í því. Hún valdi nafnið og skráði Magnús sem fyrirliða og hann fékk svo tölvupóst þar sem okkur var tilkynnt að við hefðum verið valdir í keppnina,“ sagði Hjalti Rúnar í samtali við sunnlenska.is.

„Það var mjög skemmtilegt að taka þátt í þessu. Við fengum risa matarkörfu sem dugði í þáttinn og svo eina góða grillveislu og meira til. Þannig að þetta var ótrúlega gaman,“ sagði Hjalti ennfremur og bætti við að það væri borin von fyrir Hraglandi Úrfelli að vinna keppnina.

„Ég held að við séum komnir 5.000 „like-um“ á eftir efsta liðinu, þannig að það er ekki mikill möguleiki á því.“

Verðlaunin í Grillsumrinu mikla eru ekki af verri endanum, sælkeraferð til Búdapest með Heimsferðum fyrir sigurliðið, en kosningin stendur nú yfir og má kjósa Hraglandi Úrfelli með því að smella hér og setja „Like“ við myndband strákanna. Kosningunni lýkur þann 20. ágúst.

Myndbandið má sjá hér að neðan en það er lögreglukonan skelegga, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, sem stýrir þáttunum:

Fyrri greinBað ölvaðan mann um að aka
Næsta greinÞú þarft ekki að vera góður í fótbolta til að vera góður í fótboltagolfi