Sunnlenski sveitadagurinn í dag

Fyrsta sumarhátíð ársins, Sunnlenski sveitadagurinn, verður haldin í dag, laugardaginn 4. maí á Selfossi. Þetta er í fimmta sinn sem hátíðin er haldin.

Sunnlenski sveitadagurinn hefur fest sig í sessi sem einn stærsti viðburðurinn á Suðurlandi. Jötunn Vélar og Vélaverkstæði Þóris standa saman að deginum. Sunnlenski sveitadagurinn er óður til landbúnaðarins og er haldinn á athafnasvæði fyrirtækjanna tveggja við Austurveginn á Selfossi.

Á deginum gefst sunnlenskum fyrirtækjum tækifæri til að kynna fyrir gestum eigin framleiðslu og þjónustu en um 10.000 manns hafa sótt sýninguna undanfarin ár enda er eftir mörgu að slægjast. Fjöldinn er áþekkur og sækir fjölmennar útihátíðir um Verslunarmannahelgina.

Á sýningunni hafa menn gert góð kaup, keypt beint frá bónda, tæki og tól, handverk unnin úr afurðum sveitarinnar og garðyrkjuvörur svo eitthvað sé nefnt. Fjöldi fyrirtækja hafa nýtt sér Sunnlenska sveitadaginn til að kynna matvöru, gefa smakk og selja. Grillið verður tendrað og undanfarin ár hefur verið heilsteikt naut og lambakjöt í boði Félags kúa- og sauðfjárbænda og hafa gestir kunnað að meta það.

Sunnlenski sveitadagurinn er fjölskylduhátíð þar sem allir geta skemmt sér. Félagar í hestamannafélaginu Sleipni gefa gestum kost á að fara á hestbak og sýning á dýrum og Félag ungra bænda bregða á leik með börnunum og í boði er andlitsmálun.

Glíma er ómissandi á svona hátíð og í annað sinn verður Íslandsmeistaramót í baggakasti. Keppt er bæði í kvenna- og karlaflokki.

Sérstök sýning á fiðurfénaði vekur alltaf mikla athygli, þá sérstaklega landnámshænur og skrautlegar dúfur. Bryddað verður upp á ýmsu fleiru og fullvíst að gestir sýningarinnar upplifi skemmtilegan dag á Selfossi.

Fyrri greinÞrenna Guðmundar kom Árborg áfram
Næsta greinFagna strætóferðum til Reykjavíkur