Sunnlenskar rófur til Færeyja

Um eitt tonn af rófum frá Hrafnkeli Karlssyni bónda að Hrauni í Ölfusi hafa verið sendar mánaðarlega til Færeyja síðan í haust.

Að sögn Hrafnkels líkar Færeyingum vel við rófurnar og útlit fyrir að áframhaldandi sala verði á þeim þangað og eru vonir um að hægt verði að auka magnið smám saman.

Búið að Hrauni er stærsti framleiðandi á rófum hér á landi en uppskeran hleypur á bilinu 150 til 250 tonn á ári. Að sögn Hrafnkels hefur framleiðslan aukist ár frá ári undanfarið en stefnan er að framleiða um 250 tonn á ári.

,,Við erum nú í fyrsta skipti að flytja rófur til Færeyja og þær líka vel. Við erum í samkeppni við Skota en þeir hafa selt rófur til Færeyja um nokkurt skeið en við teljum okkur vera með betri rófur. Við vonumst til þess að geta selt meira þangað en til þessa hefur Bónus í Færeyjum ekki viljað selja rófurnar okkar,“ sagði Hrafnkell. Rófurnar eru fluttar út í gegnum Sölufélag garðyrkjumanna. Þær eru seldar í 25 kg. pokum og sendar út á brettum.